Skoðun

Heimildin sem hvarf úr frum­varpi mat­væla­ráð­herra

Vala Árnadóttir skrifar

Markmið laga eiga að vera augljós, enda felur markmið í sér áætlun sem menn hafa sett sér að ná. Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, lagði nýverið fram frumvarp um lagareldi sem hún segir fela í sér stórfelldar úrbætur í umhverfisvernd með því að gera reglur skýrari og eftirlitið meira með þessum iðnaði. Að sögn ráðherrans á frumvarpið að styrkja og skýra lagaheimildir um afturköllun rekstrarleyfa ef fyrirtæki gerast brotleg við lög.

Þetta er rangt. Frumvarpið veikir heimildir ríkisins til þess að afturkalla leyfi sjókvíaeldisfyrirtækja. Með öðrum orðum það gengur þvert á yfirlýst markmið.

Veit ráðherra þetta ekki?

Ráðherra vísar títt í sérfræðinga og lögfræðinga sem hún segir að haldi því fram að leyfin verði að vera ótímabundin, annars þurfi að slá af íþyngjandi aðgerðum eins og leyfissviptingum. Ráðherra virðist ekki vera kunnugt um að í 16. grein núgildandi laga um fiskeldi er skýr heimild til afturköllunar rekstrarleyfa, einmitt vegna þess hluta starfseminnar sem veldur mestum skaða. Þessi heimild hefur hins vegar verið fjarlægð úr lagafrumvarpinu sem hún lagði fyrir Alþingi í síðustu viku.

Í 16. grein laganna sem nú gilda eru þessi orð: „Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi […] þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð.“

Þessi heimild er ekki í frumvarpi Bjarkeyjar. Ráðherra þarf að skýra af hverju svo er og hvernig hún fái út að hér sé um rýmri heimildir til afturköllunar þar sem frumvarpið bersýnilega þrengir heimildir.

Ekki starfað samkvæmt lögum

Lög eiga að kveða skýrt um við hvaða aðstæður skal afturkalla leyfi. Það eykur fyrirsjáanleika sjókvíaeldisfyrirtækja. Þessar aðstæður eiga svo að sjálfsögðu að tryggja lágmarks vernd lífríkis og náttúru Íslands sem þó verður aldrei örugg á meðan laxeldi í opnum sjókvíum er heimilað.

Þá er ágætt að árétta að nú þegar er þessi heimild til afturköllunar í lögum sem ekki er notuð, þrátt fyrir að sjókvíaeldisfyrirtækin hafi ekki staðist nánast eina einustu eftirlitsskoðun og hafa ítrekað misst frá sér fisk.

Auknir starfskraftar í eftirliti gera lítið ef lögheimiluð viðurlög eru ekki virkjuð. Það væri nær að ráðherra sem er svo annt um umhverfið leiðbeini þeirri eftirlitsstofnun sem heyrir undir ráðherra um að starfa samkvæmt lögum.

Lög þurfa að vera skýr og ráðherra þarf að skilja lögfræðina í eigin frumvarpi. Það er ekki spurning um hvort lögfræðin og réttsýni almennings fari saman, enda er fræðigrein eðli máls samkvæmt ófær um að fara gegn réttsýni almennings. Hvernig hún er notuð til þess er annað mál.

Höfundur er lögfræðingur og er í stjórn Íslenska náttúruverndarsjóðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×