Viðskipti innlent

Hagnaður Ís­lands­banka 5,4 milljarðar á fyrsta fjórðungi

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi.
Höfðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Íslandsbanki hagnaðist um 5,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi. Kostnaðarhlutfall bankans hækkar á milli ára og er rétt nær fjárhagslegu markmiði bankans.

Hagnaðurinn dróst saman um 600 milljónir króna á milli ára á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt árshlutareikningi sem Íslandsbanki birti í dag. Arðsemi eigin fjár hans nam 9,8 prósentum á ársgrundvelli borið saman við 11,4 prósent á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé Íslandsbanka nam 215,7 milljörðum króna í lok fjórðungsins, níu milljörðum minna en í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 23,6 prósent borið saman við 25,3 prósent við lok 2023. Hlutfallið er yfir fjárhagslegu markmiði bankans um að vera með hundrað til þrjú hundruð punkta eiginfjár umfram kröfur eftirlitsaðila.

Kostnaðarhlutfall bankans, hlutfall kostnaðar af tekjum, nam 44,9 prósentum á fjórðungnum en markmið hans er að hlutfallið fari ekki umfram 45 prósent. Hlutfallið nam 42,1 prósenti á fyrsta ársfjórðungi 2023. Stjórnunarkostnaður bankans jókst um fimm prósent á milli ára og nam 7,4 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Hreinar vaxtatekjur námu 12,1 miljarði króna og drógust saman um 2,4 prósent og hreinar þóknunartekjur lækkuðu um fimm prósent á milli ára. Þær námu 3,3 milljörðum króna á tímabilinu.

Útlán til viðskiptavina jukust um 24,9 milljarða króna frá síðasta ársfjórðungi 2023 eða um tvö prósent. Útlán námu 1.248 milljörðum króna við lok ársfjórðungsins.

Innlán jukust á sama tíma um 28,9 milljarða króna frá síðasta fjórðungi 2023, um 3,4 prósent. Innlánin numu 880 milljörðum króna við lok fjórðungsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×