Handbolti

Fyrsta tap læri­sveina Guð­jóns Vals síðan í byrjun mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið að gera mjög flotta hluti með lið Gummersbach í vetur en leikurinn í dag tapaðist.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið að gera mjög flotta hluti með lið Gummersbach í vetur en leikurinn í dag tapaðist. Getty/ Tom Weller

Gummersbach tapaði á móti Füchse Berlin í þýska handboltanum í dag en þetta var fyrsta tap liðsins í meira en tvo mánuði.

Füchse vann leikinn með þremur mörkum, 29-26, eftir að hafa verið 16-12 yfir í hálfleik.

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar höfðu ekki tapað í síðustu sex deildarleikjum sínum eða öllum leikjum síðan þeir töpuðu á móti Magdeburg 2. mars síðastliðinn.

Guðjón náði því ekki að hjálpa öðru Íslendingaliði í baráttunni um meistaratitilinn en þar sem mikil barátta á millu Füchse Berlin og Madeburg.

Þetta var jafnframt aðeins annað tap liðsins í síðustu ellefu leikjum en liðið var með átta stiga, eitt jafntefli og eitt tap í leikjum sínum frá og með 10. febrúar.

Arnór Snær Óskarsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu báðir eitt mark fyrir Gummersbach, Arnór úr eina skoti sínu en Elliði úr fimm skotum.

Hans Lindberg var markahæstur á vellinum með tíu mörk úr ellefu skotum og Daninn Mathias Gidsel skoraði sjö mörk.

Gummersbach er eftir leikinn í sjöunda sæti, einu stigi á eftir Hannover-Burgdorf, en á leik inni.

Füchse Berlin komst upp fyrir Magdeburg og í toppsætið með þessum góða sigri. Magdeburg á tvo leiki inni þar af annan þeirra seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×