Upp­gjör, við­töl og myndir: Breiða­blik - Valur 2-3 | Manni færri héldu gestirnir út

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gylfi Þór og félagar unnu góðan og mikilvægan sigur í kvöld.
Gylfi Þór og félagar unnu góðan og mikilvægan sigur í kvöld. Vísir/Diego

Þrátt fyrir að leika manni færri nánast allan seinni hálfleikinn unnu Valsmenn gríðarlega sterkan 3-2 sigur er liðið heimsótti Breiðablik í stórleik fimmtu umferðar Bestu-deildar karla í kvöld.

Leikurinn var fjörugur frá upphafi til enda og heimamenn héldu að þeir væru búnir að koma sér í forystu strax á annarri mínútu þegar Jason Daði Svanþórsson setti boltann í netið eftir sendingu frá Kristni Jónssyni, en flaggið var farið á loft og Jason því dæmdur rangstæður. Eftir að hafa skoðað endursýningar er þó erfitt að segja til um hvort að um réttan dóm hafi verið að ræða, en því verður ekki breytt eftir á.

Jason Daði í leik dagsins.Vísir/Diego

Jafnvægi var á leiknum næstu mínútur, en það voru þó Valsmenn sem voru heldur líklegri. Það skilaði sér loks í marki á 28. mínútu þegar skot Gylfa Þórs Sigurðssonar small í þverslánni áður en Patrick Pedersen tók frákastið og skilaði boltanum rétta leið.

Gylfi var svo sjálfur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar hann réðst á lausan bolta í teignum eftir góðan undirbúning Arons Jóhannssonar og tvöfaldaði forystu gestanna.

Gylfi Þór var allt í öllu sóknarlega hjá Val. Hólmar Örn Eyjólfsson [t.v.) og Bjarni Mark Antonsson [t.h.] skiluðu sínu varnarlega.Vísir/Diego

Blikar rönkuðu þó við sér eftir annað mark Vals og Kristinn Jónsson batt endahnútinn á sókn sem hann hafði byrjað sjálfur þegar hann þrumaði boltanum í netið af stuttu færi á 36. mínútu og staðan var því 1-2 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Ef áhorfendur héldu að fyrri hálfleikur hafi verið fjörugur þá var hann í raun frekar rólegur miðað við þann seinni. 

Adam Ægir Pálsson byrjaði á því að kveikja í mannskapnum með því að sparka varabolta inn á til að koma í veg fyrir að Blikar gætu tekið innkast og eftir að hafa upphaflega ekki gert neitt í því virtist Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, fá skilaboð í eyrað um að hann ætti að spjalda Adam. Adam var á gulu spjaldi og fékk því að fjúka í sturtu.

Rauða spjaldið fer á loft ... Vísir/Diego
... og Adam Ægir röltir út af.Vísir/Diego

Við þetta trompaðist Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, og lét fúkyrðunum rigna yfir dómarateymið. Að launum fékk hann að líta rautt spjald og hann þurfti því að klára leikinn uppi í stúku.

Allt þetta gerðist á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks, en aðeins tveimur mínútum síðar fengu Valsmenn aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Dauður bolti inni í D-boganum sem Gylfi Þór Sigurðsson smellti í netið eins og að drekka vatn. Manni færri voru Valsmenn því búnir að endurheimta tveggja marka forskot.

Blikum tókst þó að nýta sér liðsmuninn á 67. mínútu þegar boltinn datt fyrir Aron Bjarnason sem þrumaði boltanum í fjærhornið. 

Blikum vantaði annað mark eftir mark Arons en það kom aldrei.Vísir/Diego

Þrátt fyrir stífa sókn heimamanna það sem eftir lifði leiks tókst þeim þó ekki að finna jöfnunarmarkið og niðurstaðan varð 3-2 sigur tíu Valsmanna.

Atvik leiksins

Atvik leiksins er sjálfvalið. Augnablikið þegar Adam Ægir Pálsson kom aukabolta inn á völlinn til að tefja algjörlega hættulaust innkast Blika virtist ætla að vera algjör snilld, því með því náði hann aldeilis að æsa í Blikunum. 

Það varð hins vegar að lokum til þess að bæði hann og þjálfarinn hans fengu að líta rautt spjald og strax í kjölfarið skoraði Gylfi Þór Sigurðsson annað mark sitt og þriðja mark Vals, sem að lokum tryggði gestunum sigurinn.

Stjörnur og skúrkar

Líkt og með atvikið er nokkuð auðvelt að velja stjörnur og skúrka. Gylfi Þór Sigurðsson er klárlega stjarna leiksins, með tvö mörk og skot í slá sem leiddi til þess að Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark leiksins. Ef að hægt er að velja stjörnu úr tapliðinu þá má alveg hrósa Kristni Jonssyni fyrir sína frammistöðu. Hann skoraði fyrra mark Blika og var líklega besti maður heimamanna.

Skúrkarnir koma hins vegar báðir úr sigurliðinu. Adam Ægir Pálsson fékk loksins tækifæri í byrjunarliðinu og þakkaði fyrir það með því að láta reka sig út af á afar kjánalegan hátt. Þá má einnig setja skúrkastimpil á Arnar Grétarsson, þjálfara Vals, fyrir að missa stjórn á skapi sínu og láta reka sig upp í stúku.

Dómarinn

Erlendur Eiríksson og hans teymi fengu ekki auðvelt verkefni í dag. Líklega var rangt að dæma mark Jasons Daða af í upphafi leiks og eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fengu Valsmenn oft og tíðum ódýrar aukaspyrnur á eigin vallarhelmingi. Ætli gamla góða sex af tíu sé ekki sanngjörn einkunn.

Umgjörð og stemning

Það er ekkert hægt að setja út á umgjörðina hjá Blikum á Kópavogsvelli í kvöld. Troðfullur völlur og vel hugsað um alla sem lögðu leið sína á völlinn. 

Stemningin var hins vegar ekki upp á marga fiska og lengst af heyrðist lítið í áhorfendum, nema rétt til að láta óánægju sína með dómarann í ljós.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira