Erlent

Ísraels­menn í að­gerðum í Rafah og taka yfir landa­mæra­stöðina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Reykur stígur til lofts eftir árásir Ísraelshers á innviði við landamærin.
Reykur stígur til lofts eftir árásir Ísraelshers á innviði við landamærin. AP/Ramez Habboub

Ísraelsher stendur nú í aðgerðum í Rafah og hefur tekið yfir landamærastöðina í borginni, sem aðskilur Egyptaland og Gasa. Landamærin virðast vera lokuð eins og er.

Starfsmenn hjálparsamtaka á svæðinu segja flutninga á aðföngum inn á Gasa um landamærin hafa verið stöðvaða. 

Talsmenn Ísraelshers segja aðgerðirnar munu standa yfir næstu klukkustundirnar, að minnsta kosti. New York Times hefur eftir embættismanni innan hersins að þrjú gangnaop hafi fundast á svæðinu og að um 20 hryðjuverkamenn hafi verið drepir frá því að aðgerðirnar hófust.

Heimildarmaðurinn sagði enn fremur að aðgerðir næturinnar hefðu verið hnitmiðaðar og miðað að því að drepa hryðjuverkamenn Hamas og eyðileggja innviði samtakanna á svæðinu. Aðgerðirnar hefðu farið fram á því svæði sem fólk var hvatt til að rýma í gær.

Fjórir ísraelskir hermenn hefðu látist á sunnudag, í árásum Hamas frá umræddu svæði.

Bandaríkjamenn og fleiri bandamenn Ísrael hafa varað Ísraelsmenn við því að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir í Rafah, þar sem yfir milljón manna hefst við.

New York Times hefur einnig greint frá því að vopnahléssamkomulagið sem Hamas samþykkti í gær hefði aðeins falið í sér smávægilega orðalagsbreytingu frá samkomulagi sem Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn hefðu fallist á.

Menn eru sagðir deila um orðalagið „varanlegur friður“ (e. sustainable calm), sem leiðtogar Hamas eru sagðir túlka sem enda á átökum. Ísraelsmenn hafa hins vegar verið mjög skýrir með það að þeir muni ekki hverfa frá Gasa fyrr en þeir hafa náð markmiðum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×