Fótbolti

Napoli í kapp­hlaupið um Albert

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson hefur farið á kostum með Genoa í vetur og er kominn með 14 mörk í ítölsku A-deildinni.
Albert Guðmundsson hefur farið á kostum með Genoa í vetur og er kominn með 14 mörk í ítölsku A-deildinni. EPA-EFE/STRINGER

Napoli hefur blandað sér í slaginn um Albert Guðmundsson, landsliðsmann í fótbolta, sem er eftirsóttur af bestu liðum Ítalíu eftir stórkostlega leiktíð með Genoa.

Ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto, sérfræðingur í félagaskiptafréttum, greinir frá þessu og segir að næsti yfirmaður knattspyrnumála hjá Napoli, Giovanni Manna, sé mikill aðdáandi Alberts.

Giovanni Manna ku vera að leggja drög að því að gera Genoa tilboð í Albert en þessi 26 ára gamli leikmaður hefur skorað 14 mörk í ítölsku A-deildinni í vetur og er í 4. sæti yfir markahæstu menn leiktíðarinnar. Aðeins Lautari Martínez (23 mörk) hjá Inter, Dusan Vlahovic (16 mörk) hjá Juventus og Victor Osimhen (15 mörk), sem spilar einmitt með Napoli, hafa skorað fleiri.

Moretto segir að Juventus hafi verið í beinu sambandi við Genoa síðustu vikur og að nýkrýndir Ítalíumeistarar Inter fylgist einnig grannt með stöðunni en hafi ekki lagt fram tilboð enn sem komið er.

Napoli varð Ítalíumeistari á síðustu leiktíð en lét svo stjórann Walter Mazzarri fara í febrúar eftir slæmt gengi á yfirstandandi leiktíð. Francesco Calzona, sem einnig stýrir Íslandsvinunum í slóvakíska landsliðinu, tók þá við Napoli en hefur einnig haldið áfram að þjálfa Slóvakíu sem spilar á EM í sumar. Hann hefur áður starfað sem aðstoðarþjálfari hjá Napoli.

Napoli er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum og situr í 8. sæti ítölsku A-deildarinnar með 51 stig, þegar þrjár umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×