Innlent

Stjórn Ís­­lensku óperunnar afar gagn­rýnin á frum­­varp um Þjóðar­óperu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórn Íslensku óperunnar.
Stjórn Íslensku óperunnar. ÍÓ

Lýsingar á markmiðum og ávinningi af stofnun Þjóðaróperu eru meira „í ætt við fagurgala“ en að raunverulegt stöðumat hafi farið fram.

Þetta segir í umsögn stjórnar Íslensku óperunnar um frumvarp um stofnun Þjóðaróperu.

Stjórnin gerir margar athugasemdir við fyrirætlanir stjórnvalda og segir meðal annars að frumvarpið sé „með svo nniklum ágöllum um markmið, tilgang, ávinning, stjórnun, fyrirkomulag og framkvæmd 3ð stjórn íslensku óperunnar telur nauðsynlegt að gera alvarlegar athugasemdir og mæla með þvÍ að það verði ekki samþykkt nema með verulegum breytingum“.

Í athugasemdun stjórnarinnar segir meðal annars að það sé „úrelt 19. aldar hugmynd“ að færa meginhluta óperustarfsemi á Íslandi undir beina stýringu ríkisins og ráðherra. „Notkun orðsins „þjóðarópera“ virðist helst til skrauts,“ segir í umsögninni.

Hvergi sé að finna listræn eða fagleg markmið. Þó sé skýrt markmið að auka verulega fastan kostnað og þrefalda hann með 24 nýjum stöðugildum. Sjálfstæði sé fórnað og „snúið 44 ár aftur í tímann“ með því að gera óperuna að deild í Þjóðleikhúsinu og setja hana undir vald ráðherra.

Stjórnin segir að til standi að þrefalda kostnað ríkisins án þess að greina ábátann og þá liggi ekki fyrir greining á stöðu óperunnar á Íslandi.

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að fella starf Þjóðaróperu undir Þjóðleikhúsið.

„Erfitt er að átta sig á röksemdum fyrir því að Þjóðarópera skuli vera hluti af Þjóðleikhúsinu. Ekki er sýnt fram á listrænan ávinning, fjárhagslegan sparnað eða aukna framleiðni. Yfirbygging verður í besta falli sú sama í versta falli meiri. Helst er að sjá að með þessu strykist barátta Þjóðleikhússins fyrir viðbyggingu, svo kölluðum svörtum kassa,“ segir stjórnin í umsögninni.

Stjórnin leggur fram nokkrar tillögur, sem miða að því að fallið verði frá stofnun Þjóðaróperu og breytingar gerðar á rekstri Íslensku óperunnar.

Umsögn stjórnar Íslensku óperunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×