Handbolti

Stjörnu­mar­k­vörðurinn í vand­ræðum með augað á sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niklas Landin Jacobsen verður ekki með danska landsliðinu í leikjunum í þessum glugga.
Niklas Landin Jacobsen verður ekki með danska landsliðinu í leikjunum í þessum glugga. Getty/Sebastian Widmann

Niklas Landin verður ekki með danska handboltalandsliðinu í þessum landsleikjaglugga og ástæðan eru óvenjuleg meiðsli.

Landin, sem er fyrirliði danska landsliðsins, er í vandræðum með augað á sér. Danska handboltasambandið segir frá.

Hann fékk skot í hausinn í leik með Álaborgarliðinu um helgina og það blæddi inn á auga hans.

Þetta hélt áfram að trufla hann en Landin var samt mættur á landsliðsæfingu á mánudaginn. Þar var tekin sú ákvörðun að senda hann á sjúkrahús í skoðun.

Við frekari skoðun kom í ljós að það hafði blætt inn á sjónhimnuna á hægra auga.

Landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jacobsen tekur enga áhættu og gaf Landin frí frá þessu landsliðsverkefni. Framundan eru mikilvægir leikir hjá Álaborgarliðinu og eins stór verkefni hjá danska liðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Kevin Møller, markvörður Flensburg, kemur inn í hópinn í stað Landin. Hinn markvörðurinn í hópnum er hinn frábæri Emil Nielsen hjá Barcelona. Danir eru vissulega í góðum málum þegar kemur að markvörðum.

Danska liðið er komið inn á HM og þarf því ekki að taka þátt í umspilsleikjum eins og íslenska landsliðið en tekur þátt í þriggja þjóða æfingamóti í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×