Fótbolti

Dæmdur fyrir að­stoð við morð en valinn í lands­lið Síle

Sindri Sverrisson skrifar
Luciano Cabral hefur staðið sig vel á fótboltavellinum eftir að hafa setið í fangelsi í fimm ár.
Luciano Cabral hefur staðið sig vel á fótboltavellinum eftir að hafa setið í fangelsi í fimm ár.

Hinn 29 ára gamli fótboltamaður Luciano Cabral gæti spilað á Copa América í sumar, á reynslulausn eftir að hafa verið dæmdur fyrir að aðstoða pabba sinn við morð.

Morðið var framið á nýársdag árið 2017 og var pabbi Cabrals dæmdur í 16 ára fangelsi. Cabral, sem þá var 21 árs, var dæmdur í níu og hálfs árs fangelsi fyrir að aðstoða pabba sinn en blóð úr fórnarlambinu fannst á skóm Cabrals.

Cabral er í dag 29 ára og kominn á reynslulausn, eftir að hafa setið í fangelsi í fimm ár. Hann er í dag leikmaður eins af betri liðum Síle, Coquimbo Unido, og hefur skorað þrjú mörk í ellefu deildarleikjum. „Félagið okkar veitir mönnum annað tækifæri,“ sagði félagið í fréttatilkynningu um komu Cabrals.

Og nú hefur Cabral verið valinn í 55 manna hóp leikmanna sem Ricardo Gareca, landsliðsþjálfari Síle, hyggst velja úr fyrir Copa América í sumar. 

Það gæti þó flækt málið að mótið fer fram í Bandaríkjunum, því óvíst er að Cabral yrði hleypt inn í landið.

Cabral hefur aldrei leikið A-landsleik en áður en hann lenti í fangelsi hafði hann spilað fyrir U20-landslið bæði Argentínu og Síle. Hann er fæddur í Argentínu en afi hans er frá Síle.

Copa America hefst 20. júní og þar eru Síle og Argentína saman í riðli, ásamt Kanada og Perú. Gareca þarf að velja 23 leikmanna landsliðshóp Síle fyrir 12. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×