Innlent

Vill sjá Latabæ birtast aftur í sjón­varps­stöðvum heims

Kristján Már Unnarsson skrifar
Magnús Scheving, höfundur Latabæjar, í viðtali við Stöð 2 í dag.
Magnús Scheving, höfundur Latabæjar, í viðtali við Stöð 2 í dag. Arnar Halldórsson

Magnús Scheving, höfundur Latabæjar, hefur eignast sjónvarpsþættina heimsfrægu á ný ásamt vörumerki og hugverkaréttindum. Magnús segir þættina tímalausa og enn eiga erindi.

Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Magnús, sem sjálfur lék Íþróttaálfinn í Latabæ, eða Lazy Town, eins og þættirnar heita á ensku. Þetta er sú íslenska sjónvarpsþáttaröð sem náð hefur langmestri útbreiðslu á heimsvísu.

„Latibær var sýndur níu sinnum á dag í 170 löndum. Var með 500 milljón heimili, vann Bafta-verðlaun og öll verðlaun sem hugsast getur í sjónvarpinu,” segir Magnús.

Þættirnir voru alfarið framleiddir á Íslandi um ellefu ára skeið í myndveri Latabæjar í Garðabæ og urðu þeir alls eitthundrað talsins.

„Í kringum Latabæ var gríðarlega góður hópur af fólki, sem vann að Latabæ. Þetta fólk er núna að vinna að sjónvarps- og kvikmyndageiranum á Íslandi. Og það var mikil reynsla, því að 2004 hafði Ísland aldrei selt sjónvarp út fyrir landsteinana.”

LazyTown er enn í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands.Latibær

Árið 2011 seldi Magnús Latabæ til Turner-samsteypunnar og Warner Bros, sem hugðust dreifa þáttunum til þrjú þúsund sjónvarpsstöðva. Ekkert varð úr þeim áformum og segir Magnús það hafa verið sárt að sjá þættina enda uppi í hillu.

„Já, það er eiginlega ekki hægt að sjá þá lenda uppi í hillu. Latibær verður að vera á hreyfingu. Við segjum stundum „let’s move the world”. Við skulum hreyfa við heiminum. Það er það sem Latibær á að gera.”

Hann segir að á youtube-rásinni hafi þættirnir 5,5 milljarða áhorf.

„Þannig að ég held að Latibær eigi alveg erindi aftur, eins og sést á youtube-áhorfi og svona. Þetta er gríðarlega vinsælt efni, ótrúlega.”

-Þú vilt koma honum aftur í sjónvarp?

„Mig langar að koma honum aftur í sjónvarp. Mig langar að setja hann aftur í 170 lönd. Ég held að þetta geri bara gott. Ég hef aldrei hitt neinn sem hefur skaðast af Latabæ,” segir íþróttaálfurinn Magnús Scheving, höfundur Latabæjar.

En skyldi hann geta brugðið sér aftur í hlutverkið? 

Svar hans má sjá í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Magnús eignast Latabæ á nýjan leik

Magnús Scheving hefur í gegnum fjárfestingarfélagið, LZT Holding ehf., náð samkomulagi við Warner Bros, Discovery, um kaup á öllum eignum LazyTown, eða Latabæ. Undir kaupin falla allir sjónvarpsþættir, vörumerki og hugverkaréttindi LazyTown, um heim allan.

Latibær hreppti BAFTA-verðlaunin

Sjónvarpsþættirnir um Latabæ hlutu í gærkvöldi fyrstu verðlaun bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, BAFTA, í flokki alþjóðlegs barnaefnis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×