Innlent

Skila auðu til að mótmæla prófum

Samræmd stúdentspróf hefjast í framhaldsskólum landsins í dag en óvíst er hversu mikil þátttakan í þeim verður. Fjöldi framhaldsskólanema er ósáttur við prófin og hótar að skila auðum prófúrlausnum í mótmælaskyni.

Framhaldsskólanemar eru margir hverjir afar ósáttir við samræmd stúdentspróf sem verða lögð fyrir nemendur öðru sinni í dag og næstu daga. Fyrsta prófið er í íslensku en á morgun verður prófað í ensku og á föstudag verður samræmt stúdentspróf í stærðfræði lagt fyrir nemendur. Margir nemendur telja prófin ekki gagnast sér að nokkru leyti og hyggjast því grípa til aðgerða.

Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, Inspector Scholae í Menntaskólanum í Reykjavík, segir fjölda nemenda ætla að skila auðu til að mótmæla því hversu illa sé staðið að prófunum. Til marks um slælega skipulagningu sé ekki gert ráð upptökuprófum, svo sem ef fólk kemst ekki í próf vegna veikinda. Því sé það svo að fólk sem ekki komist í prófin útskrifist ekki með félögum sínum.

En þá vaknar spurningin hvort framhaldsskólanemar óttist ekki að það að skila auðu á prófinu dragi ekki úr möguleikum þeirra til að komast inn í háskóla. Gunnar Hólmsteinn segir að svo sé ekki, leitað hafi verið til háskólanna og þær upplýsingar fengist að þeir miði í engu við samræmdu stúdentsprófin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×