Íslenski boltinn

Djúpmenn: Við stöndum við gerða samninga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik með BÍ/Bolungarvík í fyrra.
Úr leik með BÍ/Bolungarvík í fyrra. Mynd/Bæjarins besta
Forráðamenn BÍ/Bolungarvíkur segja það einsdæmi að laun leikmanna liðsins hafi ekki borist á réttum tíma.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að nýstofnuð Leikmannasamtök Íslands hafi þurft að beita sér í máli Dennis Nielsen sem fór fram á að fá ógreidd laun frá BÍ/Bolungarvík.

Samúel Samúelsson, formaður félagsins, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að ágreiningur hafi verið á milli þess og Nielsen um laun síðustu tveggja mánaða ársins.

Samúel segir að Nielsen hafi vissulega verið með samning út síðasta ár en verið frjáls ferða sinna eftir 16. október. Hann hafi til að mynda farið af landi brott og verið til skoðunar hjá liðum hér heima og ytra.

BÍ/Bolungarvík hefur þó greitt Nielsen umsamin laun fyrir þessa mánuði en miðað við upphaflega frétt Morgunblaðsins gerðist það ekki fyrr en eftir aðkomu áðurnefndra leikmannasamtaka.

Yfirlýsing BÍ/Bolungarvíkur:

Stjórn Bí/Bolungarvíkur vill koma á framfæri staðreyndum vegna fréttar Morgunblaðsins nú í morgun um mál þar sem að leikmannasamtök Íslands aðstoðuð Dennis Nilsen, fyrrverandi leikmann félagsins, að fá vangreidd laun.

Svo að það komi fram þá var ágreiningur á milli félagsins og Dennis um hvort að hann ætti að fá greidd þessi laun. Leikmaðurinn var með samning sem rann út 31.desember og vildi hann meina að félagið ætti að greiða sér laun út samningstímann, sem og við svo gerðum.

Við aftur á móti töldum við okkur ekki þurfa að greiða honum laun fyrir nóvember og desember þar sem að leikmaðurinn var frjáls ferða sinna eftir 16. Október.

Leikmaðurinn fór af landi brott og var til skoðunar hjá nokkrum félögum erlendis og hér heima. Við hjá Bí/Bolungarvík stöndum við gerða samninga við leikmenn okkar og greiðum þeim það sem samið er um.

Þetta er einsdæmi og var þetta ágreiningur á milli leikmannsins og félagsins og þess vegna voru þessar greiðslur ekki greiddar á tilsettum tíma.

F.H stjórnar Bí/Bolungarvikur

Samúel Samúlsson, formaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×