Íslenski boltinn

Stefán Logi: Ég hef átt mjög jákvæð samtöl við KR í gegnum árin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
á heimleið KR-ingar eru mögulega að endurheimta Stefán Loga frá Noregi.
á heimleið KR-ingar eru mögulega að endurheimta Stefán Loga frá Noregi. fréttablaðið/valli
KR hefur nú misst báða markverði sína frá síðasta tímabili en í gær gekk danska liðið Nordsjælland frá samningum við Rúnar Alex Rúnarsson, markvörð U-21 liðs Íslands. Áður hafði landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson gengið til liðs við Sandnes Ulf í Noregi.

„Þetta ætti vonandi að skýrast á allra næstu dögum,“ sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, við Fréttablaðið spurður um markvarðastöðu liðsins næsta sumar.

Áður hefur verið greint frá því að Stefán Logi Magnússon, fyrrum KR-ingur, hafi átt í viðræðum við KR. Kristinn staðfestir það og bætir við að félagið hafi ekki átt í viðræðum við nokkurn annan markvörð.

Stefán Logi segist sjálfur ekki útiloka neitt en hann gekk í raðir Lilleström frá KR árið 2009. Samningur hans rann út nú um áramótin.

„Ég hef átt mjög jákvæð samtöl við KR í gegnum árin. Ég er mikill KR-ingur og það hefur ekkert breyst,“ segir Stefán Logi. „Vissulega eru möguleikar hér úti en ég hef virkilega mikinn áhuga á KR. Það er margt spennandi í gangi þar og væri gaman að geta lagt sitt af mörkum þar.“

Stefán Logi er vongóður um að geta gengið frá sínum málum sem allra fyrst.

„Hlutirnir eru langt á veg komnir – það þarf bara að setjast yfir einum kaffibolla til að klára málin.“

Stefán Logi hefur æft með Lilleström að undanförnu og segist í góðu formi. „Ég tók mér gott frí fyrir jól og það var í raun fyrsta almennilega fríið mitt í langan tíma. Svo hef ég verið á æfingum með Lilleström sem hefur verið frábært. Ég verð því tilbúinn þegar kallið kemur – hvaðan sem það verður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×