Íslenski boltinn

Verður Bjarni fyrri til að verða Reykjavíkurmeistari?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson tók við Fram í haust.
Bjarni Guðjónsson tók við Fram í haust.
KR og Fram mætast í kvöld í úrslitaleik Reykjavíkurmóts karla í fótbolta en leikurinn hefst klukkan 19.00 í Egilshöllinni. KR sló út Fylki í undanúrslitunum en Fram hafði betur á móti Val.

Bjarni Guðjónsson, nýr þjálfari Framliðsins og fyrirliði KR undanfarin ár, á þarna möguleika á því að vinna sinn fyrsta titil sem þjálfari og það á móti sínum gömlu félögum.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hefur unnið alla titla í boði nema Reykjavíkurmeistaratitilinn síðan hann tók við um mitt sumar 2010.

KR-liðið hefur nú tapað þremur úrslitaleikjum í röð á Reykjavíkurmótinu síðan Rúnar tók við, á móti Val 2011 (0-1), á móti Fram 2012 (0-5) og svo á móti Leikni (2-3) í fyrra. KR vann Reykjavíkurmótið síðast árið 2010 en þá þjálfaði Logi Ólafsson liðið.

Bjarni á því möguleika á því að vinna Reykjavíkurmeistaratitilinn á undan fyrrverandi þjálfara sínum. Þetta er annar leikur liðanna á mótinu því þau voru saman í riðlinum þar sem KR vann 3-2 sigur í innbyrðisleik liðanna eftir að hafa komist í 3-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×