Íslenski boltinn

Ef kallið kemur mæti ég glaður og geri mitt allra besta

Runólfur Trausti Þórhallsson og Svava Kristín Grétarsdóttir skrifa
Birkir Már fagnar marki sínu gegn FH. Sigurðru Egill Lárusson fylgir í humátt.
Birkir Már fagnar marki sínu gegn FH. Sigurðru Egill Lárusson fylgir í humátt. Vísir/Vilhelm

Birkir Már Sævarsson hefur átt frábært sumar í hægri bakverðinum hjá Val sem stefnir hraðbyr að Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu. Ekki nóg með það heldur hefur Birkir Már óvænt skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Vals. Eitthvað sem er heldur óvanalegt ef horft er til ferils hans undanfarinn áratug eða svo.

Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi við Birki Má að Hlíðarenda í dag fyrir Sportpakka Stöðvar 2. Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Birkir Már er klár ef kallið kemur

„Mér finnst ég nú svo sem búinn að spila ágætlega í sumar, mörkin eru svo bara skemmtilegur bónus,“ sagði Birkir Már og glotti aðspurður hvort það væri uppgangur í leik hans.

„Spilamennska liðsins hjálpar mikið til, ég fæ að koma mikið með í sóknina og lendi í aðstæðum þar sem ég gæti annað hvort lagt upp eða skorað mörk. Ég væri vissulega til í að vera með aðeins fleiri stoðsendingar en mörkin allavega koma og það er jákvætt.“

„Ég hef í rauninni ekki breytt neinu, þetta hefur bara fallið fyrir mig í síðustu vikunni. Ég er alveg búinn að fá færi til að skora í sumar en hef klúðrað þeim. Nú er þetta svo allt að detta,“ sagði Birkir Már um þessa óvæntu markasyrpu sína.

Birkir Már fagnar gegn FH en hann skoraði tvívegis í 4-1 sigri Valsmanna.Vísir/Vilhelm

„Ég hef svo enga skoðun á því hvort ég eigi að vera valinn eða ekki, þeir sem eru búnir að vera spila þarna hafa staðið sig vel. Mér finnst ég ekkert eiga það meira skilið en einhver annar. Ég reyni bara að standa mig vel fyrir Val og ef landsliðsþjálfaranum að ég eigi skilið að koma inn í liðið þá mæti ég ef þeir vilja fá mig,“ sagði Birkir um mögulega endurkomu sína í landsliðið.

„Mér finnst ég eiga heima þarna og finnst ég eiga heilmikið inni. Ef kallið kemur mæti ég glaður og geri mitt allra besta.“

„Stefni á bakvarðargullskóinn innan Vals allavega. Ég er með einu marki meira en Valli [Valgeir Lunddal Friðriksson] og ég ætla að halda því áfram,“ sagði Birkir Már að lokum varðandi hvort hann stefndi ekki á gullskóinn úr því sem komið er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×