Skoðun

Hverjum treystir þú?

Starri Reynisson skrifar

Flest hljótum við að gera þá kröfu til þeirra sem við treystum að það sé endurgoldið, að traustið sé gagnkvæmt. Það á jafnt við gagnvart vinum, ættingjum og elskhugum, og í raun öllum þeim sem við veljum að treysta á lífsleiðinni. Það hlýtur að vera eðlilegt að við gerum sömu kröfu þegar kemur að trausti á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Þess vegna á það að vera ein af stóru spurningunum í pólitískri umræðu hvaða stjórnmálamenn og -flokkar treysta almenningi og hversu langt það traust nær, sérstaklega í aðdraganda kosninga.

Flestir stjórnmálamenn treysta þér ekki. Þeir treysta þér ekki til þess að ráða þínu eigin nafni. Þeir treysta þér ekki til þess að ákveða hvar og hvenær þú verslar áfengi. Þeir treysta þér ekki til þess að taka ákvörðun um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þeir treysta þér ekki til þess að ákveða hvort þú neytir innlendra eða erlendra landbúnaðarafurða. Það að hinn svokallaði sykurskattur komist reglulega á dagskrá sýnir að margir þeirra treysta þér ekki einu sinni til þess að velja „rétt“ í þína eigin matarkörfu. Sumir þingmenn hafa jafnvel gengið svo langt að segja að þeir líti á það sem hlutverk sitt að hafa vit fyrir fólki. Enn aðrir, jafnvel þeir sem kenna sig hvað oftast við frelsi, treysta konum ekki til að taka veigamiklar ákvarðanir um eigin líkama.

Samt segjast flestir íslenskir stjórnmálamenn vera frjálslyndir. Það gera þeir þótt frjálslyndi snúist fyrst og fremst um að treysta fólki til að taka eigin ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim, til að ráða eigin högum hvort sem um ræðir búsetu, nafn eða nautnir. Það er lítið um að þetta traust sé sýnt í verki, og ræðum þessara stjórnmálamanna um frelsi fylgir yfirleitt orðið „en“. Flestir flokkar segjast treysta fólki þegar það hentar þeim og líta á frjálslyndið sem valkvætt, enda kenna þeir sig oftast við aðra hugmyndafræði líka, hvort sem er til hægri eða vinstri. Viðreisn er aftur á móti ekki einn af þeim flokkum.

Við erum frjálslyndur flokkur, engin viðskeyti, engar neðanmálsgreinar og ekkert „en“. Við viljum alltaf treysta þér. Hjá okkur er traustið meginreglan og frávik frá því þarf að rökstyðja vel. Við höfum sýnt það í verki með þeim málum sem við höfum beitt okkur fyrir á þingi, og þar höfum við alltaf greitt atkvæði í takt við þá hugsjón. Ekki bara þegar það hentar. Fólk sem vill þetta gagnkvæma traust á því skýran og augljósan valkost í komandi kosningum.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar og skipar 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×