Umræðan

Verndari virkrar samkeppni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Virk samkeppni skiptir öllu máli fyrir íslenskan almenning og velferð þjóðarinnar. Hún hefur reynst okkur vel á þeim sviðum sem hún hefur fengið að njóta sín en samkeppnisskortur reynst okkur þungbær. Það eru einmitt neikvæðu áhrifin sem við finnum svo vel fyrir í dag. Því kostnaðurinn sem fylgir samkeppnisskortinum bætist ofan á þunga byrði verðbólgunnar. Heimilisbókhaldið hefði því gott af aukinni samkeppni.

Áhrifin á hversdagslífið

Kostnaðurinn blasir við á hinum ýmsum sviðum og snertir okkur öll. Til dæmis á fjármála- og tryggingarmarkaði. Líka þegar við tökum eldsneyti, verslum í kvöldmatinn eða förum til læknis. Svona mætti áfram telja því samkeppnishamlandi regluverk er allt of víða. Og enginn ráðherra tekur af skarið. Úreltu tollarnir á franskar kartöflur eru lítið dæmi um það. Hátt verð á nauðsynjavörum hefur leikið okkur grátt allt of lengi. Þær landbúnaðarvörur á matvörumarkaði sem ekki falla undir samkeppnisreglur hafa leitt lestina þar.

Að vísu er hátt vöruverð til marks um háan kaupmátt hér. En aðrar skýringar liggja líka að baki og þar vegur skortur á samkeppni þyngst. Smæð íslenska hagkerfisins og gengissveiflur íslensku krónunnar grefur síðan enn frekar undan virkri samkeppni.

Ríkið sniðgengur útboðsreglur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er svo dæmt til að greiða milljónir í skaðabætur. En ríkið unir því ekki og fer í staðinn í frekari málaferli við einkaaðilann.

Viðhorf ríkisstjórnar gagnvart neytendum birtist okkur líka skýrt þegar ráðherra samkeppnismála skipar starfshóp um samkeppnis- og neytendamál án fulltrúa neytenda.

Annað dæmi er hvernig ríkið sniðgengur útboðsreglur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er svo dæmt til að greiða milljónir í skaðabætur. En ríkið unir því ekki og fer í staðinn í frekari málaferli við einkaaðilann, væntanlega til að geta sniðgengið útboðsreglurnar áfram. Ráðherrar með áhuga á samkeppni og nýsköpun beita sér ekki. Vegna þessa sinnuleysis og rangrar forgangsröðunar stjórnvalda fer samfélagið á mis við samkeppni og þann samfélagslega ávinning sem af henni og einkarekstri hlýst.

Ríkisstjórnin stingur höfðinu í sandinn

Brýnt er að auka samkeppni hér á landi. Hins vegar verða engin skref tekin þegar það er ekki á dagskrá ríkisstjórnar. Stjórnin vill ekki ræða tillögu Viðreisnar um að afnema undanþágur frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og leggja niður Verðlagsnefnd búvara. Eða koma á markaðsleið í sjávarútvegi. Tillagan um heildstæða úttekt á áhrifum virkrar samkeppni fæst ekki heldur rædd. Ekki heldur tillaga okkar um mat á samkeppnisrekstri ríkisins. Auðvitað er heldur enginn áhugi á að ræða vaxtamuninn í fjármálaþjónustu og áhrif gengisbreytinga á íslenskt atvinnulíf og almenning. Reyndar er það svo að mesta fákeppnin er á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær ekki yfir. Full aðild að Evrópusambandinu myndi því bæta stöðu neytenda enn frekar.

Ríkisstjórnin vill ekki ræða tillögu Viðreisnar um að afnema undanþágur frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og leggja niður Verðlagsnefnd búvara.

Samkeppnisskortur er okkur alltaf í óhag. Virk og heilbrigð samkeppni skilar sér aftur á móti beint til neytenda með miklum árangri. Því hún tryggir að neytendum bjóðist hagstæðara verð en ella, enda vart hjá því komist þegar öll hin fjölmörgu fyrirtæki á samkeppnismarkaði keppast um stuðning neytenda, sífellt leitandi leiða til að hámarka framleiðni og bjóða viðskiptavinum sínum hagstæðari verð. En þennan veruleika þekkjum við ekki nægilega víða.

Fokdýr fákeppni á fjármálamarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur áður bent á ófullnægjandi samkeppni á bankamarkaði. Það sama kom fram í Hvítbók um framtíðarfyrirkomulag um fjármálakerfið. Þetta breytist ekki nema gerðar séu grundvallarbreytingar.

Fákeppnishagnaðurinn er ein helsta ástæða þess að hér er dýrasta bankaþjónusta í Evrópu. Þessi kostnaður birtist m.a. í rándýrri greiðslumiðlun og háum lántökukostnaði, sem landsmenn þekkja allt of vel. Vaxtastigið hér er líka að jafnaði um fimm prósentustigum hærra en í nágrannalöndum okkar, sem er enn eitt dæmið um kostnað krónunnar.

Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar sýnt að hún er enginn verndari virkrar samkeppni. Miklu heldur á fákeppnin þar skjól.

Alþjóðleg fjármála- og tryggingarfyrirtæki vilja síður hefja starfsemi á Íslandi vegna íslensku krónunnar. Þannig er upptaka stöðugri gjaldmiðils ein skynsamasta leiðin til að auka samkeppni á þeim sviðum. Í raun er ákvörðun um að vera utan Evrusamstarfsins ákvörðun um að viðhalda fákeppni. Það hefur verulega þýðingu fyrir fólkið í landinu.

Samkeppni og almannahagur

Kostir virkrar samkeppni eru margir. Hún gagnast öllu samfélaginu í heild og bætir hag alls almennings. Hún tryggir meira vöruframboð, aukið valfrelsi og betri þjónustu samhliða því að neytendum býðst lægra verð. Samkeppni stuðlar að umbótum í rekstri og skapar aukinn hvata fyrir nýsköpun. Ábatinn er augljós og sérstaklega mikilvægur á tímum hárrar verðbólgu, fyrir neytendur jafnt sem framleiðendur. En verðbólgan getur líka ýtt undir frekari samþjöppun og skaðað samkeppnismarkaðinn til lengri tíma litið.

Þess vegna er mikilvægt að bæta ekki á vandann með samkeppnishindrunum og öðrum aðgerðum sem grafa undan samkeppni. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar sýnt að hún er enginn verndari virkrar samkeppni. Miklu heldur á fákeppnin þar skjól. Stóra málið er því að tryggja ríkisstjórn sem hefur trú á mátt virkrar samkeppni.

Höfundur er formaður Viðreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×