Innherji

Hægir enn á hag­vexti og auknar líkur á að nú­verandi raun­vaxta­stig sé „hæfi­legt“

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans verður hagvöxtur þessa árs nærri helmingi minni en áður var spáð.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans verður hagvöxtur þessa árs nærri helmingi minni en áður var spáð. Vísir/Vilhelm

Horfur eru á að hagvöxtur verði umtalsvert minni í ár en Seðlabankinn gerði áður ráð fyrir samhliða því að hægt hefur nokkuð á vexti innlendrar eftirspurnar. Peningastefnunefnd hefur ákveðið halda vöxtum bankans óbreyttum fimmta fundinn í röð, sem er í samræmi við spár allra greinenda og markaðsaðila, og telur núna meiri líkur en áður að aðhaldsstigið dugi til að ná verðbólgunni niður í markmið.

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans kemur í kjölfar þess að tólf mánaða verðbólgan mældist sex prósent í apríl, nokkuð undir væntingum, en á sama tíma eru verðbólguvæntingar enn yfir markmiði enda þótt þær hafi lækkað á suma mælikvarða, eins og segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun. Þar er einnig nefnt að verðbólga án húsnæðisliðar hafi minnkað hraðar og undirliggjandi verðbólgan sé sömuleiðis komin undir fimm prósent.

Í vaxtakönnun Innherja, sem var framkvæmd dagana 2. til 4. maí, töldu allir 24 þátttakendurnir að vöxtum yrði haldið óbreyttum í 9,25 prósent. Það var sömuleiðis spá greiningardeilda allra viðskiptabankanna.

„Ný einkunnarorð seðlabankastjóra virðast þau að ekki beri að hrósa hálfjárnuðum hesti. Skilaboðin af síðasta fundi peningastefnunefndar voru þau að jafnvel þótt verðbólga hafi gengið niður sé verkið óklárað; verðbólga er enn langt frá markmiði og nefndin hefur áhyggjur af tregðu. Á meðan svo er vill hún halda raunvaxtastiginu fremur háu,“ sagði einn þátttakandi í rökstuðningi sínum fyrir því að hann ætti von á því að peningastefnunefndin myndi halda vöxtum óbreyttum.

Fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar að hægt hafi á vexti eftirspurnar innanlands enda sé peningalegt aðhald þétt og útlit fyrir að það muni draga úr hagvexti á þessu ári, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem er birt í nýjum Peningamálum. Nefndin segir hins vegar á móti að spenna í þjóðarbúskapnum sé meiri en áður var talið og verðbólgan minnkar því hægar samkvæmt spá bankans.

Í Peningamálum segir að talið sé að landsframleiðslan, sem jókst um meira en fjögur prósent í fyrra, hafi dregist saman á fyrsta fjórðungi þessa árs og horfur fyrir þetta ár versnað í heild sinni. Þannig er núna áætlað að hagvöxturinn verði aðeins um 1,1 prósent á árinu 2024 en fyrri spá Seðlabankans gerði ráð fyrir 1,9 prósenta hagvexti.

Verðbólga var aftur á móti heldur meiri á fyrsta fjórðungi þessa árs en spáð var í febrúar og verðbólguhorfur fyrir meginhluta spátímans hafa versnað. „Það á sérstaklega við árið í ár en þar fara saman lakari upphafsstaða og meiri og þrálátari spenna í þjóðarbúskapnum en á móti vega horfur á minni hækkun launakostnaðar. Nú er talið að verðbólga verði yfir 5 prósent út þetta ár og fari ekki í markmið fyrr en á seinni hluta árs 2026,“ segir í Peningamálum.

Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar enda er peningalegt taumhald þétt og horfur eru á að það dragi úr hagvexti í ár.

Peningastefnunefndin segir í yfirlýsingu sinni að áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerðir í ríkisfjármálum á eftirspurn séu ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hafi á vinnumarkaði sé spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.

Nefndin bætir hins vegar við að hún sé þeirrar skoðunar að núna séu „auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt“ til þess að ná verðbólgunni í 2,5 prósenta markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.


Tengdar fréttir

Léttir fyrir markaðinn en „erfiði kaflinn“ við að ná niður verðbólgu að hefjast

Það var léttir fyrir skuldabréfamarkaðinn að sjá mælda verðbólgu í apríl í lægri mörkum væntinga, segir fjárfestingastjóri, og verðbólguálag lækkaði um 0,15 til 0,2 prósentustig. Sérfræðingar telja að stýrivextir Seðlabankans verði ekki lækkaðir í maí en líkur hafi aukist á að þeir lækki í ágúst. Erfiði kaflinn í baráttunni við verðbólguna sé fram undan. „Við þurfum því að sjá meiri hjöðnun verðbólgu til að vextir geti lækkað eitthvað að ráði,“ að mati sjóðstjóra.

Van­skil fyr­ir­tækj­a „ekki til marks um al­menn­a breyt­ing­u“ hjá við­skipt­a­vin­um

Íslandsbanki hefur ekki fundið fyrir mikilli aukningu í vanskilum hjá fyrirtækjum á undanförnum mánuðum, hvorki lengri né skemmri tíma vanskilum, segir fjármálastjóri Íslandsbanka. Heildarvanskil hjá fyrirtækjum í viðskiptum við Landsbankans hafa lítið eitt aukist frá áramótum en breytingin er „óveruleg og er ekki til marks um almenna breytingu hjá okkar viðskiptavinum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×