Innherji

Líf­eyris­sjóðir skiluðu nei­kvæðri raun­á­vöxtun upp á 12 prósent í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Fimm stærstu lífeyrissjóðir landsins eru LSR, LV, Gildi, Birta og Frjálsi. 
Fimm stærstu lífeyrissjóðir landsins eru LSR, LV, Gildi, Birta og Frjálsi. 

Samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða var raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða neikvæð um tæplega 12 prósent árið 2022 og er þar miðað við vegið meðaltal ávöxtunar alls eignasafns sjóðanna að teknu tilliti til verðbólgu.

Fram kemur í nýbirtri tilkynningu á vef samtakanna að eftir afar góða ávöxtun eignasafns lífeyrissjóða undanfarin ár hafi orðið viðsnúningur á síðasta ári. Árið einkenndist af óróleika á alþjóðlegum mörkuðum og aukinni verðbólgu innanlands sem og erlendis.

„Á nýliðnu ári voru miklar sviptingar á eignamörkuðum, meðal annars vegna stríðsástandsins í Úkraínu og orkumála í Evrópu. Innlend verðbólga ársins var 9,6 prósent og gáfu bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir eftir,“ segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir neikvæða ávöxtun ársins 2022 er 10 ára meðalraunávöxtun sjóðanna um 4,6 prósent og 5 ára um 4,0 prósent sem er vel umfram 3,5 prósenta ávöxtunarviðmið skuldbindinga.

Eins og Innherji hefur fjallað um juku lífeyrissjóðirnir verulega við gjaldeyriskaup sín undir árslok 2022 og keyptu að jafnaði erlendan gjaldeyri fyrir um 11,4 milljarða í hverjum mánuði á síðustu fjórum mánuðum ársins.

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabanka Íslands námu gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna samtals 104 milljörðum í fyrra. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins höfðu sjóðirnir keypt gjaldeyri fyrir samanlagt um 91,7 milljarð króna og því námu hrein gjaldeyriskaup þeirra rúmlega 12 milljörðum í desembermánuði.

Mikill og vaxandi þungi var í ásókn sjóðanna í eignir í erlendri mynt þegar líða tók á árið 2022 sem endurspeglast í því að lífeyrisjóðirnir keyptu gjaldeyri fyrir nálægt 46 milljarða á tímabilinu frá september til loka desember. Svo umfangsmikil gjaldeyriskaup á jafn skömmum tíma hafa ekki sést frá árinu 2019 en þá – ólíkt stöðunni sem nú er uppi – var mikill afgangur á viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd sem gaf sjóðunum færi á að fjárfesta verulega erlendis án þess að hefði teljandi áhrif á gengisstöðugleika.

Á öllu árinu 2021 keyptu sjóðirnir til samanburðar gjaldeyri fyrir um 53 milljarða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×