Erlent

Bretar hindra útsendingu frá erindi eftirlýsts umboðsmanns barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lvova-Belova er eftirlýst af Alþjóðaglæpadómstólnum.
Lvova-Belova er eftirlýst af Alþjóðaglæpadómstólnum. AP/Sputnik/Mikhail Metzel

Bretar hafa beitt neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að sent verði út frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem umboðsmaður barna í Rússlandi mun flytja erindi í gegnum fjarfundarbúnað.

Um er að ræða óformlegan fund ráðsins sem fer fram í dag. Þar verður fjallað um málefni Úkraínu, sérstaklega brottflutning barna frá átakasvæðum. 

Umboðsmaðurinn, Maria Lvova-Belova, er eftirlýst af Alþjóðaglæpadómstólnum fyrir meintan þátt sinn í ólöglegum brottflutningi barna frá Úkraínu til Rússlands í kjölfar innrásar Rússa.

Óformlegir fundir eru ekki haldnir í fundarsal öryggisráðsins og fulltrúar allra þjóðanna fimmtán sem eiga sæti í ráðinu á hverjum tíma verða að leggja blessun sína yfir að sjónvarpað sé frá fundunum.

Talsmaður Bretlands við Sameinuðu þjóðirnar sagði að það ætti ekki að gefa Lvovu-Belovu tækifæri til að breiða út áróður og falsupplýsingar. Ef hún vildi tjá sig um störf sín ættu hún að gera það fyrir dómstólnum í Haag.

Lvova-Belova sagðist í gær vera reiðubúin til að senda börn aftur til Úkraínu ef fjölskyldur þeirra færu fram á það. Fulltrúar stjórnvalda í Úkraínu hefðu ekki sett sig í samband við sig frá því að átökin brutust út.

Hvatti hún foreldra til að senda sér tölvupóst.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa sakað Rússa um að flytja fleiri en 16 þúsund börn til Rússlands. Rússar segja um björgunaraðgerðir að ræða og að börnunum verði skilað. Fregnir hafa hins vegar borist af því að börnunum sé haldið í „endurmenntunarbúðum“ víðs vegar um Rússland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×