Erlent

Hættir í veður­fréttum eftir hótanir vegna lofts­lags­um­fjöllunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður gengur að flóðvatni úr Mississippi-fljóti í Iowa í síðasta mánuði. Flóðið fylgdi metsnjókomu í vetur en svo óvenjuhraðrar bráðnunar í vor. Veðurfræðingur í Iowa sætti hótunum fyrir að fjalla um áhrif loftslagsbreytinga.
Maður gengur að flóðvatni úr Mississippi-fljóti í Iowa í síðasta mánuði. Flóðið fylgdi metsnjókomu í vetur en svo óvenjuhraðrar bráðnunar í vor. Veðurfræðingur í Iowa sætti hótunum fyrir að fjalla um áhrif loftslagsbreytinga. Vísir/Getty

Bandarískur veðurfréttamaður sagði starfi sínu lausu vegna andlegs álags eftir hótanir sem hann fékk fyrir umfjöllun sína um loftslagsmál. Hann segir aðra vísindamenn og blaðamenn sæta sambærilegum hótunum.

Chris Gloninger er aðalveðurfræðingur sjónvarpsstöðvarinnar KCCI í Des Moines í Iowa í Bandaríkjunum. Hann tilkynnti áhorfendum stöðvarinnar í vikunni að hann ætlaði að láta af störfum í sumar eftir átján ára feril sem sjónvarpsveðurfréttamaður.

Vísaði Gloninger til veikinda í fjölskyldunni og áfallastreituröskunar sem hann hefði þjáðst af frá því að hann fékk hótanir fyrir umfjöllun sína um loftslagsbreytingar í fyrra.

„Ég er að reyna að komast yfir þetta en á sama tíma held ég að þetta varpi ljósi á það sem blaðamenn sem flytja fréttir daglega þola,“ segir Gloninger við Washington Post.

Ógnandi skilaboð með vísun í óhugnanlegt mál dómara

Gloninger var vanur gagnrýni á loftslagsumfjöllun áður en hann flutti til Iowa árið 2021. Hann segist hafa þróað með sér þykkan skráp og einbeitt sér að því að fræða áhorfendur um hvernig loftslagsbreytingar hefðu áhrif á þá.

Áreitið hófst síðasta sumar með tölvupósti þar sem hann var sakaður um „frjálslynt samsæri“ um veðrið. Nokkrum dögum síðar fékk hann annan póst þar sem sendandinn spurði hann hvar hann byggi.

„Okkur íhaldssömum Iowa-búum langar til þess að bjóða þig velkominn að Iowa-sið sem þú gleymir aldrei,“ skrifaði sendandinn sem vísaði einnig til hæstaréttardómarans Bretts Kavanaugh. Í sama mánuði var maður handtekinn við heimili dómarans og síðar ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hann hringdi sjálfur í neyðarlínu og sagðist ætla að myrða Kavanaugh og svo svipta sig lífi.

Gloninger segist hafa verið í klippingu þegar hann fékk seinni póstinn. Hann hafi drifið sig heim þar sem eiginkona hans var ein heima og hringt á lögregluna.

Tölvupóstarnir héldu áfram að berast og Gloninger óttaðist að sendadinn væri með sig á heilanum. Hann hafi hitt sálfræðing vegna áfallastreituröskunar og misst einbeitinguna í vinnunni.

„Ég svaf ekki. Ég var með bauga undir augunum,“ segir hann.

Sendandinn sektaður

Lögreglan hafði upp á sendandanum sem reyndist 63 ára gamalla karlmaður. Hann var sektaður fyrir athæfið.

Gloninger segir að þrátt fyrir að sendandinn hafi fundist hafi hann áfram átt erfitt uppdráttar í vinnunni og að veikindi í fjölskyldunni hefðu ekki hjálpað. Hann harmar að þurfa að gefa draumastarf sitt upp á bátinn en er vongóður um framtíðina.

„Ég er mjög stoltur af því að hafa frætt almenning um áhrif loftslagsbreytinga á ferli mínum. Nú get ég helgað mig alfarið því að finna sjálfbærar lausnir og stuðla að jákvæðum breytingum,“ tísti Gloninger um brotthvarf sitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×