Erlent

Banna jákvæða mismunun kynþátta

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsfólk jákvæðrar mismununar fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna þegar hann hlýddi á málflutning í málinu gegn háskólunum í október.
Stuðningsfólk jákvæðrar mismununar fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna þegar hann hlýddi á málflutning í málinu gegn háskólunum í október. AP/J. Scott Applewhite

Hæstiréttur Bandaríkjanna bannaði tveimur af helstu háskólum landsins að taka tillit til kynþáttar við innritun nemenda í dag. Svokallaðri jákvæðri mismunun hefur verið beitt um áratugaskeið til þess að vega upp á móti afleiðingum aldalangrar mismununar kynþátta í Bandaríkjunum. 

Harvard-háskóli og Háskólinn í Norður-Karólínu, elsti einkarekni háskóli landsins annars vegar og elsti opinberi háskólinn hins vegar, voru taldir hafa brotið gegn stjórnarskrá þegar þeir notuðu kynþátt umsækjenda sem eina forsendu innritunar.

Dómur réttarins snýr við löngu fordæmi. Síðast staðfesti hann jákvæða mismunum sem Háskólinn í Texas beitti við innritun árið 2016, að sögn Washington Post. Síðan þá hefur samsetning réttarins breyst umtalsvert og eru íhaldsmenn í öruggum meirihluta.

Álit dómsins var algerlega eftir flokkslínum. Íhaldsmennirnir sex, skipaðir af repúblikönum, stóðu að meirihlutaálitinum um að banna jákvæða mismunun en frjálslyndu dómararnir þrír, skipaðir af demókrötum, skiluðu sératkvæði. Í meirihlutaálitinu sem John Roberts, forseti réttarsins skrifaði, sagði að meta yrði umsækjendur út frá reynslu þeirra sem einstaklingar, ekki út frá kynþætti þeirra. Jákvæð mismunun stríði gegn ákvæðum stjórnarskrár um jafnræði kynþátta.

Félagasamtök nemenda sem var synjað um inngöngu í háskóla héldu því fram í málinu að hvítir og asískir umsækjendur sættu mismunun þar sem svartir, rómanskir og frumbyggjar fengju forgang.

Jákvæðri mismunun var ætlað að rétta hlut fólks úr ákveðnum minnihlutahópum í bandarísku samfélagi og jafna aðstöðumun þeirra gangvart hvíta kynþáttameirihlutanum í landinu. Blökkumenn sættu gagngerri mismunun á grundvelli kynþáttar í Bandaríkjunum lang fram yfir miðja 20. öldina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×