Viðskipti innlent

Fjár­festing er­lendra aðila í ís­lenska vatninu muni skapa fjölda starfa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Elliði Vignisson er bæjarstjóri Ölfuss.
Elliði Vignisson er bæjarstjóri Ölfuss. Vísir/Egill

Bæjarstjóri Ölfuss á von á því að fyrirhuguð uppbygging nýrra eigenda Iceland Water Holdings í bænum muni skapa fjölda nýrra starfa, en segir hana ekki munu hafa teljandi áhrif á vatnsbúskap á svæðinu. 

Morgunblaðið greindi frá því í dag að athafnamennirnir Jón Ólafsson og sonur hans Kristján hafi selt stóran hlut í Icelandic Water Holdings til erlendra fjárfesta. Búið sé að undirrita kaupsamninga en gengið verði frá kaupunum 22. ágúst næstkomandi. Fjárfestarnir hafi í hyggju að stórauka framleiðslugetu fyrirtækisins á Hlíðarenda í Ölfusi, sem muni meðal annars fela í sér byggingu nokkurra verksmiðja til viðbótar við þá sem fyrir er.

Sveitarstjóri Ölfus segir sveitarfélagið hafa fundað með fulltrúum nýrra meirihlutaeigenda.

„Þeir hafa kynnt fyrir okkur sínar áætlanir, eða drög að þeim, kynnt stefnu sína og áherslur og við höfum gert slíkt hið sama,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Hann eigi von á að eigendaskiptin muni hafa mikil áhrif, bæði hvað varðar fjölgun starfa og aðra uppbyggingu. Ekki liggi þó fyrir hversu mörg störf muni skapast.

„Við erum nú bara í fyrstu orðum samtalsins og höfum ekki farið í að greina það, en það gæti orðið verulegt. Og bætist þá við þessi 800 til 1200 störf sem þegar eru að verða til innan sveitarfélagsins,“ segir Elliði. 

Aukin umsvif muni ekki hafa teljandi áhrif á vatnsbúskap á svæðinu.

„Ölfus er þannig staðsett. Það er gríðarlega mikið jarðvatn. Þeir þurfa ekki meiri vatnstöku, eða vatnslindir. Það er hverfandi lítil nýting á þeirri lind sem þeir eru með nú þegar. Það eru mjög mikil vatnsgæði þarna. Þannig að áhrif á heildarvatnsbúskap svæðisins, það er dropi í Atlantshafið.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×