Enski boltinn

Sjeik Jassim vill enn­þá kaupa en óttast að Glazer-fjöl­skyldan hætti við að selja

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United hafa margoft mótmælt eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar á félaginu.  Gangi salan á því ekki í gegn má búast við mikilli óánægju.
Stuðningsmenn Manchester United hafa margoft mótmælt eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar á félaginu. Gangi salan á því ekki í gegn má búast við mikilli óánægju. Vísir/Getty

Salan á Manchester United hefur gengið hægar en stuðningsmenn liðsins höfðu vonast. Tilboð Sjeik Jassim er enn á borðinu en hann óttast að Glazer-fjölskyldan sé efins um hvort rétt sé að selja.

Sjeik Mohammed bin Jassim Al Thani hefur alls lagt fram fimm tilboð til að kaupa allt hlutafé í Manchester Untited. Félagið hefur verið í eigu Glazer-fjölskyldunnar síðan árið 2005 og hafa stuðningsmenn United margoft mótmælt eignarhaldi fjölskyldunnar.

Síðasta tilboð Sjeik Jassim var lagt fram í byrjun júní en hann hafði þá barist við breska milljarðamæringinn Jim Ratcliffe um að heilla Glazer-fjölskylduna. Sjeikinn hefur sagst munu hreinsa upp skuldir félagsins og leggja fjármagn í uppbyggingu Old Trafford, bæði karla- og kvennalið félagsins sem og akademíuna.

Segir að Glazer-fjölskyldan hafi aldrei sagt að hún vilji selja

Áhugi Sjeik Jassim hefur ekkert dvínað en áhyggjunum í herbúðum hans fer vaxandi. Eftir því sem ferlið dregst á langinn eykst kostnaðurinn fyrir bjóðendur sem þurfa að borga bönkum, rágjöfum og lögfræðingum.

Kaveh Solehkol, fréttamaður Skysports, segir að margir efist um raunverulegan vilja Glazer-fjölskyldunnar að selja Manchester United.

„Sjeik Jassim er að bíða eftir svari frá Glazer-fjölskyldunni. Hann hefur ekki fengið svar en er enn áhugasamur. Margir innanbúðarmenn halda að Glazer-fjölskyldan sé ekki viss um að hún vilji selja. Það eru mismunandi aðilar innan fjölskyldunnar, sumir gætu viljað selja en aðrir telja þetta ekki rétta tímann.“

„Það komu fréttir í dag að Katararnir væru nálægt því að ganga frá kaupunum. Ég held hins vegar að ekkert hafi breyst. Þeir vilja kaupa en eru ekki vissir um að Glazer-fjölskyldan vilji selja. Við þurfum að hafa það á hreinu að fjölskyldan hefur aldrei stigið fram og sagst vilja selja Manchester United. Í nóvember sögðust þeir vilja fá inn nýja fjárfesta og að það gæti mögulega leitt til sölu. Það var bara einn möguleiki í stöðunni,“ segir Solehkol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×