Innlent

Frjó­semi stór partur af sjálfs­mynd fólks og erfitt þegar hún bregst

Lovísa Arnardóttir skrifar
Aldís Eva segir það afar dýrmætt að geta eignast börn. Það sé þó alls ekki sjálfgefið að geta það.
Aldís Eva segir það afar dýrmætt að geta eignast börn. Það sé þó alls ekki sjálfgefið að geta það. Aðsend mynd

Karlar og konur sem greinast með krabbamein eru líklegri til að glíma líka við ófrjósemi. Frjó­semi er stór partur af sjálfs­mynd fólks og margir sem taka henni sem sjálfsögðum hlut. Al­dís Eva Frið­riks­dóttir er ein fimm fyrir­lesara á mál­þingi um ó­frjó­semi og krabba­mein síðar í dag. 

Al­dís Eva Frið­riks­dóttir sál­fræðingur hefur sér­hæft sig í með­ferð fyrir karla og konur sem glíma við frjó­semis­vanda. Hún segir það reyna afar mikið á fólk og þegar annað bætist við, eins og krabba­mein, verði það enn erfiðara.

„Við ó­frjó­semi eykst greiningar­tíðni geð­raskana auk þess sem streita og álag eykst. Þetta reynir rosa­lega á and­lega, þetta ferli, sama hvernig það birtist,“ segir Al­dís Eva en hún er ein fyrir­lesara á mál­þingi sem haldið er í dag á vegum Lífs­krafts. Mark­miðið með mál­þinginu er að styðja við vitundar­vakningu Lífs­krafts um ó­frjó­semi í tengslum við krabba­meins­með­ferð.

„Það er svo dýr­mætt að eignast börn og sárs­aukinn sem fólk þarf að upp­lifa í tengslum við þetta er gífur­legur,“ segir Al­dís Eva.

Partur af sjálfsmyndinni

Hún segir að fyrir flesta sé frjó­semi partur af sjálfs­mynd okkar. Flestir taki henni sem gefinni og spái ekki mikið í það að það gæti orðið vanda­mál að eignast barn.

„Af því að við komum í þennan heim. Þú ert kannski hluti af fjöl­skyldu­einingu, þar sem for­eldrar eignuðust barn. Það er þess vegna eins og þetta sé auð­veldur hlutur í sjálfs­myndinni okkar og það reynir extra mikið á, og er vont, þegar sjálfs­myndin verður við­kvæm og lág. Því það var kannski engin fræðsla og þetta er ekkert rætt. Það er enginn sem elst upp og talar um að það verði erfitt fyrir hann að eignast börn,“ segir Al­dís.

Stuðningur við eggheimtu og sálfræðimeðferð

Ný­verið hleypti Lífs­kraftur úr vör her­ferðinni, Leg­gangan, sem snýr að söfnun fyrir egg­heimtu­að­gerðum og sál­fræði­með­ferð fyrir fólk sem þarf að takast á við ó­frjó­semi eftir krabba­meins­með­ferð. Ár­lega greinast um 80 ein­staklingar með krabba­mein á barn­eignar­aldri. Hjá meiri­hluta kvenna sem fara í gegnum krabba­meins­með­ferð hætta mánaðar­legar blæðingar og margar konur verða ó­frjóar eða eiga erfitt með að verða barns­hafandi eftir krabba­meins­með­ferð.

Al­dís Eva segir mikla þörf á vitundar­vakningu og al­mennri um­ræðu um ó­frjó­semi en að þegar fólk glími svo líka við krabba­mein reyni það af­skap­lega mikið á og geri lífs­reynsluna jafn­vel enn erfiðari.

„Þetta er svo rosa­lega hamlandi fyrir ein­stak­linginn og sam­fé­lagið í heild sinni,“ segir Al­dís Eva og að eitt af því sem geri ferlið erfiðara sé mikill kostnaður. 

„Ekki nóg með það að sál­fræði­með­ferð sé dýr og egg­heimtan, þá þarftu að greiða fyrir að geyma fóstur­vísa og með­ferð ef þú nýtir þá. Þetta safnast upp,“ segir Al­dís og að ofan á þetta bætist svo krabba­meins­með­ferðin en flestir eru frá vinnu á meðan henni stendur.

Sem dæmi kostar glasa­frjóvgun hjá Livio 590 þúsund, frysting fóstur­vísa 490 þúsund, egg­frystinga­með­ferð 470 þúsund og frjóvgunar­með­ferð eftir slíka með­ferð um 410 þúsund.

Al­dís segir þetta mál­efni ekki bara varða konur. Það geti allir greinst með ó­frjó­semi, sama hvort um ræðir karla eða konur, sér­stak­lega í kjöl­far krabba­meins­með­ferðar.

„Í báðum til­fellum, ef það er farið í ein­hver frjó­semisinn­grip áður en krabba­meins­með­ferð hefst, þá þarf að geyma það og borga geymslu­gjaldið auk með­ferðarinnar sjálfrar.“

Umræðan opnari en ekki nógu

Hún segir að um­ræðan hafi að ein­hverju leyti opnast um þessi mál síðustu ár. Það sé meira talað um endómí­t­ríósu og ó­frjó­semi en það megi gera betur.

„Þetta er enn svo mikið tabú. Það er svo mikil­vægt að fólk fræði sig og viti hvaða mögu­leikar eru í boði. Það er erfitt að ræða þetta og lítil þekking til staðar um ó­frjó­semi.“

Mál­þingið hefst klukkan 16.30 og stendur til 18.30. Góð­gerða­fé­lagið Lífs­kraftur í sam­starfi við Líf styrktar­fé­lag, Kraft, Krabba­meins­fé­lagið og Til­veru stendur fyrir mál­þinginu. Það fer fram í Há­skólanum í Reykja­vík í stofu v101. Mál­þingið er haldið til að styðja við vitundar­vakningu Lífs­krafts um ó­frjó­semi í tengslum við krabba­meins­með­ferð. Nánar hér á vef Lífs­krafts.

Dag­skrá:

16.30 - 16.45 G. Sig­ríður Ágústs­dóttir upp­hafs­kona Lífs­krafts opnar mál­þingið.

16.45 - 17.00 Reynslu­saga

17.00 – 17.15 Vig­dís Guð­munds­dóttir, hjúkrunar­fræðingur og sér­fræðingur hjá Krabba­meins­fé­lagi Ís­lands. Lang­vinnar og síð­búnar auka­verkanir eftir krabba­meins­með­ferð hjá fólki á barn­eignar­aldri.

17.15-17.30 Kol­brún Páls­dóttir, yfir­læknir á kven­lækninga­deild Land­spítala. Að greinast með krabba­mein á barn­eignar­aldri.

17.30-17.45. Krist­björg Heiður Ol­sen, fæðinga- og kven­sjúk­dóma­læknir hjá Livio. Varð­veisla frjó­semi við krabba­meins­greiningu.

17.45-18.00 Al­dís Eva Frið­riks­dóttir, sál­fræðingur á Sál­fræði­stofunni Höfða­bakka og starfar fyrir Til­veru. And­leg líðan og mikil­vægi sál­ræns stuðnings við ó­frjó­semi.

18.00-18.30 Al­dís Eva Frið­riks­dóttir, G. Sig­ríður Ágústs­dóttir, Kol­brún Páls­dóttir, Krist­björg Heiður Ol­sen og Vig­dís Guð­munds­dóttir taka þátt í pall­borðs­um­ræðum.


Tengdar fréttir

Egg­heimta vegna krabba­meins­með­ferðar verði niður­greidd

Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram frumvarp um að eggheimta sem sé komin til vegna krabbameinsmeðferðar verði tekin inn í greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Þetta kom fram í Leggönguboði 66°Norður á Hafnartorgi í gærkvöldi.

Sprengja í tækni­frjóvgunum

Tæknifrjóvgunum hér á landi hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Frá árinu 2019 til 2022 fjölgaði aðgerðum um 51 prósent. Þingmaður segir fjölgunina ekki koma sér á óvart.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×