Viðskipti innlent

Bergrún og Jón Þór til Sam­kaupa

Atli Ísleifsson skrifar
Bergrún Ólafsdóttir og Jón Þór Hallgrímsson.
Bergrún Ólafsdóttir og Jón Þór Hallgrímsson. Samkaup

Bergrún Ólafsdóttir og Jón Þór Hallgrímsson hafa verið ráðin nýir verkefnastjórar hjá Samkaupum.

Í tilkynningu segir að Jón Þór hafi verið ráðinn verkefnastjóri fjármála og reikningshalds á fjármála- og rekstrarsviði Samkaupa en Bergrún verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála.

„Jón Þór mun vinna náið með fjármálastjóra Samkaupa og gegna lykilhlutverki í nútímavæðingu og almennri uppbyggingu fjármálasviðs samhliða því að sjá um daglegan rekstur fjármála- og reikningshaldsdeildar. Jón Þór hefur yfirgripsmikla reynslu af vinnu á fjármálasviði og kemur með ítarlega þekkingu inn í fyrirtækið á reikningshaldi, fjármálagreiningu og endurskoðun.

Jón Þór kemur til Samkaupa frá Kerecis þar sem hann hefur starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði frá árinu 2022 en þar áður var hann hjá sérfræðingur á endurskoðunarsviði Deloitte 2017-2022. Jón Þór er með Macc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík og BSc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Bergrún Ólafsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum. Bergrún mun leiða samstarf Samkaupa við Pure North sem felur í sér heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun, samhliða eftirfylgni með umhverfismarkmiðum Samkaupa og verslana fyrirtækisins; Nettó, Kjörbúð og Krambúð.

Bergrún kemur til Samkaupa frá Hjálpræðishernum á Íslandi þar sem hún hefur starfað frá byrjun árs 2021 sem verslunar- og verkefnastjóri. Í starfi sínu hjá Hjálpræðishernum leiddi Bergrún verkefni um mataraðstoð, gegn matarsóun, með Samkaupum sem á fyrstu fimm mánuðum verkefnisins leiddi til rúmlega 20 milljóna króna styrks og gefur nú allt að 300 einstaklingum daglega að borða. Bergrún er menntuð í fata- og textílhönnun og hlaut á árinu umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×