Innlent

For­maður Bænda­sam­taka Ís­lands á­hyggju­fullur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunnar Þorgeirsson staddur á ráðstefnunni á Selfossi, ásamt Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur, bónda og sveitarstjórnarmanni í Rangárþingi ytra.
Gunnar Þorgeirsson staddur á ráðstefnunni á Selfossi, ásamt Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur, bónda og sveitarstjórnarmanni í Rangárþingi ytra. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Formaður Bændasamtakanna hefur áhyggjur af því að einkafyrirtæki í landbúnaði nái hæfu og vel menntuðu starfsfólki landbúnaðarins yfir til sín því þau geti borgað hærri laun en opinberi geirinn.

10 ára afmælisráðstefna Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fór fram á Selfossi í vikunni þar sem boðið var upp á fjölbreytta fyrirlestra, sem allir tengdust landbúnaði á einn eða annan hátt. Nokkur ávörp voru haldin í upphafi ráðstefnunnar, meðal annars frá Gunnari Þorgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, sem var áhyggjufullur.

„Ég var á ársfundi dönsku bændasamtakanna. Þar höfðu menn áhyggjur af því hvernig einkageirinn er að ná í ráðgjafa, sem starfa innan ráðgjafamiðstöðvar Danmerkur af því að þeir bjóða hærri laun. Þá veltir maður fyrir sér hvernig getum við staðið vörð um okkar frábæra starfsfólk innan RML, að þeim verði ekki bara stolið til Líflands eða Fóðurblöndunnar eða eitthvað annað af því að við höfum ekki efni á því að greiða laun,“ sagði Gunnar.

Fjölmenni víða af landinu sótti 10 ára afmælisráðstefnuna.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og Gunnar sagði að þetta mál þyrfti að hugsa vel og bregðast við því ekki megi opinberi landbúnaðurinn missa sitt besta starfsfólk.

„Þetta er vandi ef við ölum upp góða ráðgjafa og svo er þeim bara kippt yfir til þeirra, sem borga betur. Þannig að ég held að við þurfum líka að huga að því hvernig búum við að okkar starfsmönnum innan RML þannig að við njótum þeirra starfskrafta þegar við erum búin að ala þau vel upp í góðum siðum til framtíðar,“ sagði formaður Bændasamtakanna.

Kátir Selfyssingar, Sveinn Sigurmundsson (t.v.), framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands og Þorsteinn Ólafsson dýralæknir.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir mætti á ráðstefnuna með sínum aðstoðarmanni.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×