Innlent

Til skoðunar hvort bilun eða mis­tök hafi valdið skaðanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karl Gauti Hjaltason er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Karl Gauti Hjaltason er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. vísir/Vilhelm

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur til skoðunar hvort einhver bilun hafi orði í tækjabúnaði eða mistök gerð þegar akkeri um borð í Hugin VE féll frá borði með þeim afleiðingum að neysluvatnslögn Eyjamanna varð fyrir skemmdum. Hættustig almannavarna hefur verið lýst yfir vegna stöðunnar.

Skemmdirnar á vatnslögninni sem er á sjávarbotni við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn teygja sig yfir þrjú hundruð metra. Akkeri Hugins VE festist í lögninni og varð til þess að hlífðarkápa á lögninni losnaði. Vatnslögnin liggur samsíða rafmagnsköplum frá landi til Eyja.

Ekki er talið óhætt að reyna að gera við neysluvatnslögnina til Vestmannaeyja sem skemmdist gríðarlega fyrr í mánuðinum. Nú er unnið að því að reyna að festa hana til að koma í veg fyrir að hún rofni. Til skoðunar eru leiðir til að flytja vatn ef lögnin rofnar.

Enginn vatnsskortur er þó í Eyjum og engin ástæða fyrir Vestmannaeyinga að spara vatn að sögn Karls Gauta Hjaltasonar lögreglustjóra. Málið er litið alvarlegum augum og var gert samkomulag um starfslok við skipstjóra og stýrimann Hugins VE í umræddri ferð.

„Þetta mál er til rannsóknar. Markmiðið er að upplýsa hvað gerðist. Hvort það hafi verið einhver bilun í tækjabúnði eða einhver mistök gerð,“ segir Karl Gauti.

Það sé markmið rannsóknarinnar. Skýrslutökur séu hafnar en ekki lokið. Koma verði í ljós hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað sem varð til þess að akkerið féll með fyrrnefndum afleiðingum.

„Það er mikið myndefni sem við þurfum að fara yfir. Aðallega úr eftirlitsmyndavélum úr skipinu,“ segir Karl Gauti.

Þá sé fyrirhugað sjópróf á morgun þar sem sigla eigi skipinu úr höfn og leika eftir innsiglinguna til að fá betri mynd á atburðarásina. Héraðsdómur Suðurlands standi fyrir sjóprófinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×