Innherji

Er­lend markaðs­fjár­mögnun bankanna í „góðum far­vegi“ og staða þeirra sterk

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar Seðlabankans. Hér er hann í púltinu í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar Seðlabankans. Hér er hann í púltinu í morgun. Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir að fjármálaskilyrði hafi farið versnandi eftir því sem hægt hefur á efnahagsumsvifum þá er skuldahlutfall bæði fyrirtækja og heimila hóflegt sem gefur þeim svigrúm til að mæta hækkandi greiðslubyrði, að sögn fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans. Hún brýnir sömuleiðis fyrir mikilvægi þess að koma á samskonar umgjörð og kröfum um starfsemi lífeyrissjóða eins og á við um aðra þátttakendur á fjármálamarkaði.

Í yfirlýsingu sem fjármálastöðugleikanefndin sendi frá sér fyrr í morgun er meðal annars lögð áhersla á að fjármálakerfið hér á landi sé traust.

„Þótt dregið hafi úr vexti útlána er geta þeirra góð til áframhaldandi miðlunar lánsfjár til heimila og fyrirtækja. Erlend markaðsfjármögnun bankanna er í góðum farvegi og á áætlun. Vanskil eru lítil og hafa aukist óverulega þrátt fyrir aukna verðbólgu, hækkun vaxta og þyngri greiðslubyrði. Í ljósi þessa ákvað nefndin að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5 prósent,“ segir nefndin. 

Þá bendir hún að á móti versnandi fjármálaskilyrðum þá sé á sama tíma skuldastaðan hjá fyrirtækjum og heimilum hófleg, bæði í samhengi við tekjur og eigið fé. Sú staða skapi svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði húsnæðislána að greiðslugetu og þeim lánþegaskilyrðum sem nefndin hefur sett.

Nefndin leggur því áherslu á að lagaleg umgjörð um sjóðina og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra við miðlun fjármagns séu samanburðarhæfar við þær sem gerðar eru til annarra aðila á fjármálamarkaði.

Fjármálastöðugleikanefndin gerir sömuleiðis stöðu lífeyrissjóðana á fjármálamarkaði að umtalsefni og nefnir að þeir séu þar „ráðandi þátttakendur,“ og bætir við: „Nefndin leggur því áherslu á að lagaleg umgjörð um sjóðina og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra við miðlun fjármagns séu samanburðarhæfar við þær sem gerðar eru til annarra aðila á fjármálamarkaði.“

Innherji hefur áður fjallað ítarlega um þá skoðun Seðlabankans, sem nýtur einnig stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að rétt sé að endurskoða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða samhliða því að gerðar séu meðal annars umbætur á stjórnarháttum þeirra og innra eftirlit aukið.

Í viðamikilli úttekt AGS á styrk íslenska fjármálakerfisins (svonefnt FSAP-mat) fyrr í sumar var mælt til þess að regluverkið um lífeyrissjóði yrði styrkt, eins og þegar kemur stjórnskipulagi þeirra, og auka ætti viðurlagaheimildir Seðlabankans gagnvart sjóðunum. Sambærileg sjónarmið voru reifuð í skýrslu þriggja fyrrverandi erlendra seðlabankastjórnenda, sem birtist í ársbyrjun, en þar var regluverkið í kringum fjárfestingar lífeyrissjóða sagt vera „gamaldags“ og ekki tryggja skynsamlega áhættustýringu.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt í viðtali við Innherja að hann taki undir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að rétt sé að afnema margar af þeim magnbundnu takmörkunum sem gilda um íslensku lífeyrissjóðanna, eins og til dæmis hámark á eignarhald í einstökum félögum, samhliða auknu eftirliti með starfsemi þeirra og bættri áhættustýringu. Starfshópur sem hefur unnið að grænbók um lífeyrissjóðakerfið er nú með til skoðunar að leggja til slíkar breytingar.

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun er einnig sagt að nefndin styðji framgang frumvarps um aukið rekstraröryggi í greiðslumiðlun sem lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Mikilvægt sé að huga heildstætt að viðnámsþrótti greiðslumiðlunar, koma sem fyrst á óháðri innlendri greiðslumiðlun, styrkja net- og rekstraröryggi fjármálafyrirtækja og treysta rekstrarsamfellu.

Þá segist nefndin hafa lokið árlegu endurmati sínu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum og eiginfjáraukum sem fylgir því að vera skilgreindir sem slíkir. Nefndin staðfesti kerfislegt mikilvægi Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans og ákvað að halda eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis óbreyttum í tvö prósent á allar áhættuskuldbindingar.

„Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi svo að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

„Hættan við of sam­ræmdar reglur á fjár­mála­markaði er sam­ræmið“

Ítrekaðar athugasemdir Seðlabanka Íslands og erlendra stofnana við stjórnarhætti lífeyrissjóða og áhættustýringu þeirra rista ekki nógu djúpt að sögn framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs. Hann varar við því að tilraunir til að endurskoða reglur um áhættustýringu hjá sjóðunum – í því skyni að samræma regluverkið á fjármálamarkaði – geti leitt til þess að allir bregðist við áhættu á sama hátt og þannig magnað upp áhættu á markaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×