Innherji

Ís­land eigi enn inni „tölu­vert mikið“ af hækkunum á láns­hæfis­mati

Hörður Ægisson skrifar
Í viðtali við Innherja segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri aðspurður að áhrifin af þessari hækkun S&P ættu að vera talsverð. Þetta skipti bankana sérstaklega „mjög miklu máli,“ útskýrir hann.
Í viðtali við Innherja segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri aðspurður að áhrifin af þessari hækkun S&P ættu að vera talsverð. Þetta skipti bankana sérstaklega „mjög miklu máli,“ útskýrir hann.

Nýleg hækkun á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins hjá S&P ætti að hafa mikil jákvæð áhrif í för með sér fyrir þjóðarbúið, einkum fjármálakerfið, að sögn seðlabankastjóra sem telur Ísland eiga skilið enn meiri hækkun á lánshæfismatinu. Matsfyrirtækið hefur fram til þessa greint aukna hagræna áhættu hjá bönkunum sem hefur haft áhrif á áætlanir um mögulegt umfram eigið fé þeirra.  

S&P Global Ratings tilkynnti fyrir rétt ríflega einum mánuði um hækkun á lánshæfismati Íslands, úr A í A+, sem var sagt endurspegla útlit fyrir áframhaldandi kraftmikinn hagvöxt samhliða því að halli á rekstri hins opinbera og viðskiptajöfnuði verði „hóflegur.“

Hækkunin kom í kjölfar þess að ýmsir ráðamenn, meðal annars þáverandi fjármálaráðherra, seðlabankastjóri og bankastjóri Arion banka, höfðu fyrr á árinu lýst því yfir að þeir teldu lánshæfismat ríkissjóðs lægra en við ættum skilið miðað við styrk hagkerfisins og stöðu þjóðarbúsins. Einkunn ríkisins hafði fram að þessu haldist óbreytt í A frá 2019 en á árunum þar á undan hafði hún hækkað jafnt og þétt frá losun hafta eftir því sem hagkerfið styrkist á ný samhliða því að skuldir ríkisins lækkuðu og ytri staða þjóðarbúsins styrktist.

Í viðtali við Innherja segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri aðspurður að áhrifin af þessari hækkun S&P ættu að vera talsverð. Þetta skipti bankana sérstaklega „mjög miklu máli,“ útskýrir hann, og rifjar upp að S&P hafi sögulega séð verið það matsfyrirtæki sem hafi verið hvað neikvæðast í mati sínu á Íslandi og bankakerfinu.

Hækkandi lánshæfismat hefur ekki aðeins áhrif á þau lánakjör sem ríkissjóði býðst á erlendum mörkuðum heldur sömuleiðis fyrir innlenda banka og fyrirtæki.

Seðlabankastjóri segist vera þeirrar skoðunar að Ísland eigi skilið eftir sem áður hærri lánshæfiseinkunn sé litið meðal annars til þess hvernig við séum að reka okkar kerfi, litla skuldsetningu ríkissjóðs og traustan efnahagsreikning þjóðarbúsins sem birtist í því að Ísland er lánveitandi gagnvart útlöndum.

„Við eigum því að mínu viti inni töluvert mikið af hækkunum á lánshæfismatinu og það mun skipta máli þegar fram í sækir með því að setja traustari grunn undir alla erlenda fjármögnun,“ segir Ásgeir í viðtali við Innherja sem var tekið eftir fund fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans miðvikudaginn 6. desember síðastliðinn.

Þar kom meðal annars fram í yfirlýsingu nefndarinnar að erlend markaðsfjármögnun bankanna væri í góðum farvegi og á áætlun. Í riti sínu Fjármálastöðugleiki sem kom út í september sagði að lausafjárstaða bankanna í erlendum gjaldmiðlum væri „mjög sterk“ og þeir ættu nægt laust fé til að greiða öll skuldabréf í erlendri mynt sem væru á gjalddaga í ár og á næsta ári, án þess að brjóta lausafjárreglur Seðlabankans.

Í skýrslu S&P frá því í liðnum mánuði var vikið að bankakerfinu og rifjað upp á afkoman þar hafi farið batnandi samtímis auknum lánavexti, sem núna sé farið að hægja á, hækkandi vaxtastigi og hagræðingu í rekstri. Matsfyrirtækið spáir því að arðsemin muni haldast sterk – á bilinu um 11 til 13 prósent á eigið fé – fram til ársins 2025. Þá væntir S&P þess að hækkandi fjármagnskostnaður og þrengri fjármálaskilyrði muni leiða til aukinna útlánatapa sem jafngildi hóflegum 20 til 25 punktum af heildar útlánasafni þeirra á næstu tveimur árum.

Við eigum því að mínu viti inni töluvert mikið af hækkunum á lánshæfismatinu og það mun skipta máli þegar fram í sækir með því að setja traustari grunn undir alla erlenda fjármögnun.

Þrátt fyrir það sé fjárhagsstaða bankanna afar sterk og góð afkoma muni veita þeim svigrúm til að mæta mögulega meiri útlánatöpum en S&P gerir ráð fyrir í sinni spá.

Eftir að S&P hækkaði lánshæfismat Íslands í A+ fylgdi matsfyrirtækið því eftir nokkrum dögum síðar og tilkynnti að það hefði staðfest lánshæfiseinkunn Arion banka í BBB/A-2, en horfum var breytt úr neikvæðum í stöðugar. Bent var á að S&P teldi að sú efnahagslega áhætta sem íslenskir bankar stæðu frammi fyrir fari dvínandi með auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og minni skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Sama einkunn var staðfest í tilfelli Íslandsbanka og Landsbankans en þar var horfum hins vegar breytt úr stöðugum í jákvæðar.

Þá var einnig greint frá því lok síðasta mánaðar að S&P hefði hækkað lánshæfismat sértryggðra skuldabréfanna allra bankanna þriggja í A+ með stöðugum horfum.

Fyrr á árinu var lánshæfismat Íslandsbanka og Arion banka hækkað í A3 af Moody´s, með stöðugum horfum.

Vonir hafa verið bundnar við að hækkunin á lánshæfismati Íslands gæti breytt fyrra mati S&P gagnvart áhættu í bankakerfinu hér á landi, eins og Innherji hefur áður fjallað um, sem hefur haft áhrif á mögulegt umfram eigið fé þeirra en í tilfelli Arion banka var það metið um 29 milljarða í lok þriðja fjórðungs.

Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion, nefndi þannig á uppgjörsfundi eftir annan fjórðung á árinu að fyrrnefnt mat S&P hefði haft áhrif á áætlanir bankans. Matsfyrirtækið komst nýlega að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa greint aukna hagræna áhættu í fjármálakerfinu, að Arion banki þyrfti að styrkja eiginfjárhlutföll sín til að viðhalda „mjög sterkri“ stöðu. Kröfur S&P eru nú umtalsvert hærri en lögbundnar eiginfjárkröfur fjármálaeftirlitsins.

„Til skemmri tíma munum við haga fjármagnsskipan okkar í samræmi við þessa mælikvarða. Hins vegar, ef horft er til meðallangs tíma, gerum við ráð fyrir að kröfur eftirlitsyfirvalda og matsfyrirtækja muni leita í sama horf, eftir því sem íslenska hagkerfið sýnir þrautseigju sína eða vegna annarra þátta,“ sagði Ólafur Hrafn.


Tengdar fréttir

Seðla­banka­stjóri: Láns­hæfis­mat Ís­lands „lægra en við eigum skilið“

Seðlabankastjóri segist vera þeirrar skoðunar að lánshæfismat íslenska ríkisins sé „lægra en við eigum skilið“ en þar spilar meðal annars í að alþjóðlegu matsfyrirtækin virðast hafa vantrú á ferðaþjónustunni. Ef áætlanir fyrirtækja í hugverkaiðnaði um stórauknar útflutningstekjur á komandi árum ganga eftir þá mun það hins vegar hafa veruleg áhrif fyrir allt íslenska hagkerfið.

Banka­stjóri Arion: Ættum að njóta sömu láns­kjara og önnur nor­ræn ríki

Ísland ætti á komandi árum að geta séð fram á betri fjármögnunarkjör á erlendum lánamörkuðum samhliða væntingum um að hugverkaiðnaður verði brátt ein helsta útflutningsstoð hagkerfisins, að sögn bankastjóra Arion. Fyrirliggjandi þjóðhagsspár vanmeta áætlanir um vöxt útflutningstekna og því eru líkur á að „hagvaxtarhorfur séu allt aðrar og miklu betri“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×