Innlent

Ís­lenski Atlantshafslaxinn nærri út­rýmingar­hættu

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Tíðindin koma fram á nýjum válista Alþjóðlegu Náttúruverndarsamtakanna sem gefinn var út í vikunni.
Tíðindin koma fram á nýjum válista Alþjóðlegu Náttúruverndarsamtakanna sem gefinn var út í vikunni. Vísir/Vilhelm

Íslenski Atlantshafslaxinn er nálægt því að vera í útrýmingarhættu, í fyrsta sinn, meðal annars vegna sjókvíaeldis. Þetta kemur fram á nýjum válista Alþjóðlegu Náttúruverndarsamtakanna sem gefinn var út í vikunni.

Á þessum nýja válista kemur fram að af 160.000 dýrategundum sem þekktar séu um í heiminum, eru 44.000 dýrategundir nálægt útrýmingarhættu.

Breska blaðið The Guardian beinir sjónum sínum sérstaklega að ferskvatnsfiski á þessu nýja lista og segir að fimmtungi allra tegunda sem lifi í fersku vatni sé ógnað vegna loftslagsbreytinga, eða rúmlega 3.000 tegundum af tæplega 15.000 tegundum sem til séu.

Stofninum fækkað um 23 prósent

Í skýrslunni kemur fram að menn hafi lengst af haft litlar sem engar áhyggjur af fiskum í fersku vatni, en að það hafi breyst snarlega á síðustu árum þar á með á meðal ástandinu á íslenska Atlantshafshafslaxinum, sem eins og landanum er kunnugt um, er lífæð íslenskra laxveiðiáa. Stofninum hafi fækkað um 23% og að hann hafi til að mynda horfið algerlega úr mörgum ám í Bretlandi.

Þá fækkun megi fyrst og fremst rekja til loftslagsbreytinga, takmörkuðu laxins að uppeldisstöðvum síns vegna stíflna og ekki síst vegna aukins sjókvíaldeldis á borð við það sem Íslendingar þekkja í og við strendur landsins.

Þrengi að Atlantshafslaxinum

Þá kemur einnig fram að Kyrrahafslaxinn, sé orðinn frekur til fjörsins í Atlantshafi og þrengi að Atlantshafslaxinum.

Í skýrslunni segir að tegundir ferskvatnsfiska séu um það bil jafnmargar og þær sem synda í sjónum. Það sé í raun stórmerkilegt miðað við að vistkerfi ferskvatns sé einungis um 1% af öllu vistkerfi vatns í heiminum. Þessar fiskitegundir séu því afskaplega mikilvægar vistkerfinu og milljónir manna eigi lífsafkomu sína undir veiðum á ferskvatnsfiski.

Fréttin hefur verið uppfærð en í fyrri útgáfu stóð að Atlantshafslaxinn væri í stórfelldri útrýmingarhættu. Hið rétta er að hann er nálægt því að vera í útrýmingarhættu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×