Skoðun

Jóla­hug­vekja um að­búnað svína

Darri Gunnarsson og Rósa Líf Darradóttir skrifa

Samtök um dýravelferð á Íslandi (SDÍ) standa nú annað árið í röð fyrir auglýsingaherferð sem hvetur fólk til þess að kaupa ekki hamborgarhrygg í jólamatinn. Þessi grein er hugvekja um það efni. Einhverjum kann að þykja þetta frekleg afskipti af jólahefðum fjölskyldunnar. Það er ekki ætlunin heldur vekja fólk til umhugsunar um meðferð dýra og benda á að kaup á svínakjöti er í flestum tilfellum stuðningur við hræðilega meðferð dýra.

Lög um velferð dýra segja til um að dýr eiga að hafa tækifæri til að upplifa sitt náttúrulega atferli. Þetta er ein af lágmarkskröfum til að halda dýr. Iðnaðarframleiðsla á svínakjöti, sem ekki getur talist búskapur, uppfyllir engan veginn þetta skilyrði. Gyltum er haldið föngum í þröngum gotstíum. Afkastageta þeirra til að skila af sér sem flestum grísum er hámörkuð. Gyltur eru frá náttúrunnar hendi afar ljúfar og umhyggjusamar mæður en búa við aðstæður þar sem þær geta á engan hátt sinnt grísunum sínum.

Flest erum við dýravinir. Við viljum að dýrum líði vel og njóti góðs lífs. Við gerum kröfu um, treystum og jafnvel trúum að kjöt sem framleitt er á Íslandi uppfylli slík skilyrði. Framleiðsla á svínakjöti gerir það ekki. Fæst okkar þekkja til framleiðslunnar enda er það hagur framleiðenda að halda upplýsingum um hana leyndum.

Svín er greind, leikglöð og ljúf en þeim er búið hræðilegt líf í svínabúum landsins. Með kaupum á vörum frá slíkum búum eru neytendur að samþykkja og styðja við illa meðferð dýra. Samþykki og stuðning veitum við í skjóli sjálfsblekkingar eða vanþekkingar um starfsemina. Tilgangur þessarar greinar er að hvetja fólk til að leiða hugann að því hvað gera þarf til að koma hamborgarhryggnum á diskinn okkar.

Svínum er aldrei hleypt út og geta því aldrei andað að sér fersku lofti. Þau fá ekki að leika sér við eðlilegar aðstæður eða róta í moldinni með trýni sínu. Gylturnar gjóta allt að þrisvar sinnum á ári. Þær dvelja langdvölum í stíum sem eru svo þröngar að þær geta ekki snúið sér við. Þær geta einungis staðið upp og lagst niður. Þær geta ekki hnusað af grísum sínum sem sjúga spena í gegnum rimla. Tennur og halar grísa eru klippt án deyfingar af starfsfólki verksmiðjubúa. Það er í trássi við lög og reglur. Halaklipping er sársaukafull aðgerð þar sem bein eru klippt af dýrinu. Þessi hreinlátu dýr eru svo látin dúsa í þröngum stíum í úrgangi sínum.

Lokaskref framleiðslunnar fer fram í gasklefa við hræðilegar aðstæður. Hópur svína er þá rekinn í klefa og opnað er fyrir kæfigas. Í gasklefum má kæfa hóp svína til meðvitundarleysis en það getur tekið 60 kvalarfullar sekúndur. Gasið er mjög ertandi og veldur sviða í slímhúðum og mikilli andnauð. Matvælaöryggisstofnun Evrópu metur notkun gasklefa við slátrun svína alvarlegt velferðarmál þar sem aðferðin veldur ótta, streitu og sársauka.

Svín eru eins og við. Þau skynja umhverfi sitt og finna til í vondum aðstæðum. Þau eru tilfinningaverur sem gleðjast, hræðast, kvíða og sakna. Þau geta lært að spila tölvuleiki og kunna að meta tónlist. Þau sýna félögum sínum samkennd. Maðurinn býr líka yfir þeim góða eiginleika. Veitum þessum eiginleika rými í ákvarðanatöku okkar. Hugum að því hvers konar framleiðslu við styðjum þegar við veljum jólamatinn.

Fólk getur minnkað þjáningarspor sitt til muna með því að hafna svínaafurðum.

Höfnum verksmiðjubúskap og sleppum hamborgarhryggnum þessi jól. Fylgist með á instagram og facebook aðgangi samtakanna á @dyravelferd

Darri Gunnarsson, verkfræðingur

Rósa Líf Darradóttir, læknir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×