Íslenski boltinn

Tíu bestu liðin (1984-2023): ÍBV 1998 | Komu fagnandi

Eftir að hafa verið hársbreidd frá því að vinna tvöfalt árið á undan afrekaði ÍBV það tímabilið 1998. Steingrímur Jóhannesson fyllti skarð Tryggva Guðmundssonar með glæsibrag og skoraði grimmt fyrir Eyjamenn sem lentu í þrengingum um sumarið en tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á KR-ingum í úrslitaleik í Frostaskjólinu.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjamenn stilla sér upp eftir bikarúrslitaleikinn gegn Leiftursmönnum. Bræðurnir Steingrímur og Hjalti Jóhannessynir skoruðu mörk ÍBV í 2-0 sigri.

Eftir að hafa verið hársbreidd frá því að vinna tvöfalt árið á undan afrekaði ÍBV það tímabilið 1998. Steingrímur Jóhannesson fyllti skarð Tryggva Guðmundssonar með glæsibrag og skoraði grimmt fyrir Eyjamenn sem lentu í þrengingum um sumarið en tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á KR-ingum í úrslitaleik í Frostaskjólinu.

ÍBV 1998 lenti í 9. sæti í kjöri Vísis á bestu fótboltaliðum Íslands síðustu fjörutíu ár (1984-2023).

Eftir að hafa bjargað sér á ævintýralegan hátt frá falli 1992 og 1993 lenti stórskemmtilegt lið ÍBV í 3. sæti 1995 og komst í bikarúrslit árið á eftir. Tímabilið stigu Eyjamenn svo stóra skrefið og urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í átján ár og voru hársbreidd frá því að verða tvöfaldir meistarar en töpuðu fyrir Keflvíkingum í vítaspyrnukeppni í endurteknum bikarúrslitaleik.

grafík/sara

Tímabilið 1998 vann ÍBV svo báða stóru titlana en leiðin að Íslandsmeistaratitlinum var öllu torfærari en árið á undan. En endirinn á tímabilinu var dísætur og rennur Eyjamönnum seint úr minni.

Eyjamenn lentu í hremmingum strax í fyrsta leik þar sem þeir þurftu jöfnunarmark frá Sigurvin Ólafssyni þegar mínúta var eftir til að gera jafntefli við nýliða Þróttar, 3-3. Í 4. umferð hristist svo Eyjan þegar Íslandsmeistararnir töpuðu fyrir hinum nýliðunum, ÍR-ingum, í Mjóddinni. Til að bæta gráu ofan á svart meiddist Sigurvin skömmu seinna og spilaði ekkert meira á tímabilinu. ÍBV var þarna búið að tapa fimm stigum gegn nýliðunum og missa tvo mikilvægustu leikmennina úr sóknarleik sínum frá tímabilinu á undan, Tryggva og Sigurvin. 

grafík/sara

En ÍBV hafði Steingrím. Eftir brotthvarf Tryggva varð hann alfað og ómegað í sóknarleik Eyjamanna og stóð undir því trausti. Hann skoraði níu mörk í fyrstu sex leikjum ÍBV, ekkert í næstu þremur leikjum en svo sjö mörk í næstu fjórum leikjum. Steingrímur var þá kominn með sextán mörk og flestir bjuggust við því að markametið myndi falla. En hann skoraði ekki í síðustu fimm deildarleikjum ÍBV en sem betur fer fyrir Eyjamenn stigu aðrir upp.

Hinum megin á vellinum gat ÍBV treyst á ógnarsterkt miðvarðarpar Hlyns Stefánssonar og sigurvegarans fúlskeggjaða, Zorans Miljkovic. Sem fyrr sagði fékk ÍBV á sig þrjú mörk gegn Þrótti í 1. umferð og Leiftursmenn fóru svo illa með Eyjavörnina í 8. umferð og skoruðu fimm mörk gegn meisturunum. En í hinum sextán leikjunum fékk ÍBV aðeins á sig sjö mörk og hélt níu sinnum hreinu. Liðið fékk líka aðeins eitt mark á sig í fimm leikjum í bikarkeppninni.

grafík/sara

Annað árið í röð var Gunnar Sigurðsson frábær í marki Eyjamanna, bakverðirnir Ívar Bjarklind og Hjalti Jóhannesson stöðugir og traustir og miðjan með þá Steinar Guðgeirsson, Ívar Ingimarsson og Kristin Hafliðason var öflug. Og þrátt fyrir að missa Tryggva, Sigurvin og Sverri Sverrisson, sem gerðu samtals 31 mark 1997, skoraði ÍBV aðeins fjórum mörkum minna en tímabilið á undan. Ingi Sigurðsson var á sínum stað á hægri kantinum, skoraði fjögur mörk og lagði upp flest allra í deildinni (8). Á hinum kantinum skilaði Kristinn Lárusson þremur mörkum og fimm stoðsendingum. Þjóðverjinn Jens Paeslack var svo öflugur í byrjun móts og kom með beinum hætti að níu mörkum í deildinni. 

KR byrjaði rólega en fór á mikið flug seinni hluta tímabilsins og eftir sjö sigra í röð án þess að fá á sig mark fóru Vesturbæingar á toppinn. En í næstsíðustu umferðinni töpuðu KR-ingar í Keflavík á meðan Eyjamenn sigruðu Leiftursmenn. ÍBV dugði því jafntefli gegn KR í úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Frostaskjólinu laugardaginn 26. september 1998. ÍBV freistaði þess þar að verja titilinn en KR að vinna hann í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Og bikarinn fór aftur til Eyja. Strákarnir hans Bjarna Jóhannssonar voru betri í úrslitaleiknum, unnu hann sannfærandi, 0-2, með mörkum Inga og Kristins, og titilinn annað árið í röð.

Eyjamenn hikstuðu talsvert tímabilið 1998 og töpuðu full mörgum leikjum í deildinni (4). En þeir unnu báða titlana og sigruðu helsta andstæðing sinn, KR-inga, í þrígang, tvisvar í deild og einu sinni í bikar. Ef það sýndi ekki hvert besta lið landsins var gerði ekkert það.


Tengdar fréttir

Tíu bestu liðin (1984-2023): Breiðablik 2022 | Háflug á vængjum Hrafnsins

Breiðablik missti af Íslandsmeistaratitlinum 2021 á grátlegan hátt en kom öflugt til baka og vann titilinn með talsverðum yfirburðum árið eftir. Blikar, með Ísak Snæ Þorvaldsson í feiknaformi, byrjuðu tímabilið af gríðarlegum krafti, unnu fyrstu átta leiki sína og voru alltaf fremstir í kapphlaupinu um titilinn. Þá gerðu þeir sig gildandi í Evrópukeppni.






×