Íslenski boltinn

Klara Bjartmarz lætur af störfum sem fram­kvæmda­stjóri KSÍ

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ síðan árið 2015.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ síðan árið 2015. Vísir/Arnar

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ lætur af störfum að eigin frumkvæði í lok febrúarmánaðar og hverfur til annarra starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands þann 1. mars. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Knattspyrnusambands Íslands. Ráðning nýs framkvæmdastjóra verður í höndum næsta formanns KSÍ og stjórnar að loknu ársþingi sem fer fram 24. febrúar næstkomandi. Tveir frambjóðendur hafa boðið sig fram til formanns, Guðni Bergsson og Þorvaldur Örlygsson. 

Klara hefur starfað hjá KSÍ í 30 ár, síðan í janúar 1994, lengst af við mótamál og landslið kvenna, þá gegndi hún einnig starfi skrifstofustjóra og var svo ráðin framkvæmdastjóri sambandsins árið 2015. 

,,Mér er efst í huga þakklæti á þessum tímamótum, þakklæti fyrir þau forréttindi að fá að vinna við áhugamál mitt í 30 ár. Það er ekki sjálfgefið. Ég þakka samstarfsfólki mínu hjá KSÍ fyrir þolinmæðina, vináttu og stuðning sem og öllum þeim aðilum í knattspyrnuhreyfingunni sem ég hef átt samleið með öll þessi ár. Takk fyrir mig og sjáumst á vellinum" sagði Klara í fréttatilkynningu KSÍ. 

Vanda Sigurgeirsdóttir hafði áður tilkynnt að hún myndi láta af störfum sem formaður KSÍ þegar hennar kjörtímabili lýkur á næsta ársþingi. 


Tengdar fréttir

Þorvaldur býður sig fram til formanns KSÍ

Þorvaldur Örlygsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×