Íslenski boltinn

Segja Aron vera að ganga í raðir Breiða­bliks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron í leik með Blikum á sínum tíma.
Aron í leik með Blikum á sínum tíma. Vísir/Bára Dröfn

Vængmaðurinn Aron Bjarnason mun að öllum líkindum spila með Breiðabliki í Bestu deild karla í knattspyrnu. Hann lék á sínum tíma 69 leiki fyrir félagið.

Frá þessu greinir hlaðvarpsþátturinn Gula spjaldið. Albert Brynjar Ingason er umsjónarmaður þáttarins sem og sérfræðingur Stöðvar 2 Sport um íslenska boltann sem og Meistaradeild Evrópu.

Í færslu Gula spjaldsins segir að hinn 28 ára gamli Aron hafi valið Breiðablik eftir að hafa verið einnig í samningaviðræðum við Val. Svo langt voru þær samningaviðræður komnar að Valsarar voru í þann mund að boða til blaðamannafundar.

Aron kemur til Breiðabliks eftir að hafa leikið með sænska liðinu Sirus undanfarin ár. Sem atvinnumaður hefur vængmaðurinn einnig leikið fyrir Újpest í Ungverjalandi en hér á landi hefur hann leikið fyrir Þrótt Reykjavík, Fram, ÍBV, Breiðablik og Val.

Hann hefur nú ákveðið að snúa aftur í Kópavoginn þar sem hann lék frá 2017 til 2019. Eflaust er hann hugsaður sem fyrsti kostur á hægri vængnum þar sem allt virðist benda til þess að Jason Daði Svanþórsson elti Óskar Hrafn Þorvaldsson og Anton Loga Lúðvíksson til Haugasund í Noregi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×