Íslenski boltinn

Pétur tekur slaginn með Vestra í efstu deild

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pétur Bjarnason í leik með Fylki.
Pétur Bjarnason í leik með Fylki. Vísir/Anton Brink

Pétur Bjarnason er snúinn aftur á heimaslóðir og mun spila með uppeldisfélagi sínu Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu í sumar. Þetta staðfesti félagið fyrr í dag.

Pétur er uppalinn á Vestfjörðum en gekk í raðir Fylkis árið 2022. Þar spilaði hann 25 leiki á síðustu leiktíð og skoraði sex mörk. Hann var samningsbundinn Fylki þegar hann fékk vinnu á Ísafirði og stefndi lengi vel í að hann myndi hreinlega ekki spila knattspyrnu næsta sumar.

Nú hefur Vestri hins vegar staðfest endurkomu Péturs en hann á að baki 211 leiki fyrir félagið. Þá hefur hann skorað 76 mörk í búningi Vestra og vonast nýliðarnir til að hann bæti við þann fjölda næsta sumar.

Pétur er ekki eini framherjinn sem er snúinn heim en Andri Rúnar Bjarnason mun einnig spila með liðinu á komandi tímabili.

Vestri hefur leik í Bestu deildinni þann 7. apríl þegar liðið sækir Fram heim í Úlfarsárdalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×