Innlent

Á­kærður fyrir að leggja átta manns í lífs­hættu í á­bata­skyni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Húsnæðið sem málið varðar er í Reykjavík.
Húsnæðið sem málið varðar er í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Maður hefur verið ákærður fyrir láta útbúa búseturými í atvinnuhúsnæði án tilskilinna leyfa og án nauðsynlegra brunavarnaráðstafanna. Fram kemur í ákæru að maðurinn hafi leigt húsnæðið og leigt það út til annarra, en í að minnsta kosti átta menn bjuggu í því. Með því huga ekki að brunavörnum er hann sagður hafa stefnt lífi mannanna í hættu.

Húsnæðið sem málið varðar er í Reykjavík. Meint brot mannsins varða brot gegn lögum um brunavarnir og hættubrot og ná yfir tímabilið frá júlí 2017 til júnímánaðar 2018. Brotin eiga að hafa verið framin í gegnum tvö félög mannsins, en annað þeirra er nú afskráð og hitt gjaldþrpota.

Málið átti að vera tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni, en því var frestað um óákveðinn tíma.

Í ákæru málsins segir að í húsinu hafi verið bráð íkveikjuhætta, en í júní 2018 gerði slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu úttekt á eldvörnum í því. Niðurstöður hennar leiddu í ljós fjölmarga galla.

„Engin brunahólfun var til staðar í húsnæðinu til að takmarka útbreiðslu elds og reyks, flóttaleiðir voru ófullnægjandi, loft var klætt auðbrennanlegu plasti og bil veggja og lofts voru fyllt hraðbrennanlegu efni, ástand raflagna var óásættanlegt og skapaði eldhættu, auk þess sem starfsemi sem fór fram í húsnæðinu fól í sér íkveikjuhættu og aukin brunahætta var vegna mikils eldsmatar í húsnæðinu,“ segir í ákærunni.

Þá er fullyrt að með þessu hafi maðurinn í ábataskyni og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu þeirra sem voru búsettir í húsinu í augljósan háska.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru íbúar hússins, mennirnir átta, starfsmenn verktakafyrirtækis sem var að störfum í húsnæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×