Fótbolti

Þór/KA stelpur komnar á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen er komin með sex mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum.
Sandra María Jessen er komin með sex mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum. Vísir/Vilhelm

Þór/KA vann sinn fjórða sigur í fjórum leikjum í Lengjubikar kvenna í fótbolta í dag þegar norðankonur sóttu sigur í Skessuna í Hafnarfirði.

Þór/KA vann þá 2-1 sigur á FH en Akureyrarliðið er með fullt hús og sautján mörk í plús eftir fjóra fyrstu leikina. Með sigrinum tryggðu þær sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Fyrirliðinn Sandra María Jessen skoraði sigurmarkið á 79. mínútu eftir stoðsendingu frá Láru Ivanusa. Þetta var sjötta mark Söndru í keppninni.

Fyrra markið var eina mark fyrri hálfleiksins. Margrét Árnadóttir kom Þór/KA í 1-0 á 29. mínútu eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Huldu Björg Hannesdóttur inn fyrir vörnina.

Breukelen Woodard jafnaði metin á 69. mínútu eftir frábært samspil við Elísu Lönu Sigurjónsdóttur.

Gyða Kristín Gunnarsdóttir og Esther Rós Arnarsdóttir skoruðu mörk Stjörnunnar í 2-1 sigir á ÍBV eftir að Kristín Klara Óskarsdóttir hafði komið Eyjakonum yfir. Gyða Kristín jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks en sigurmarkið hjá Esther kom átta mínútum fyrir leikslok.

Stjörnukonur komust upp í annað sæti riðilsins með þessum sigri en liðið er að keppa um sæti í undanúrslitum við FH og Víking sem eru bæði einu stigi á eftir fyrir lokaumferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×