Íslenski boltinn

TF-Besta hefur sig til flugs: Allir út í sólina nema KR

Aron Guðmundsson skrifar
TF-Besta hefur hafið sig á loft og leið flestra liða liggur til Spánar.
TF-Besta hefur hafið sig á loft og leið flestra liða liggur til Spánar. Vísir

Hver á fætur öðrum pakka meistara­flokkar ís­lenskra fé­lags­liða í fót­bolta niður í töskur og halda út fyrir land­ssteinana í æfinga­ferðir fyrir komandi tíma­bil. Öll lið Bestu deildar karla, nema KR sem fer ekki út í æfingar­ferð, halda út til Spánar þetta árið.

Vísir hefur sankað að sér upp­lýsingum um æfingar­ferðir þeirra liða sem skipa Bestu deild karla þetta árið og gerir þeim skil hér í þessu greinar­stúf.

Valur - 2. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Arnar Grétars­son

Lið Vals er það lið sem margir telja best til þess búið að veita ríkjandi Ís­lands­meisturum Víkings Reykja­víkur sam­keppni á komandi tíma­bili. Piltarnir af Hlíðar­enda eru þessa dagana í sinni æfinga­ferð fyrir tíma­bilið á Mon­te­ca­still­o við suður­strönd Spánar ekki langt frá borginni Sevilla.

Þar gætu Vals­menn sótt inn­blástur í fé­lag heima­manna fyrir komandi þátt­töku sína í Evrópu­keppni á komandi tíma­bili eftir að hafa endað í 2.sæti Bestu deildarinnar á því síðasta. Sevilla réði lögum og lofum í Evrópu­deildinni árin 2013-2016 undir stjórn Unai Emery og vann keppnina þrisvar sinnum í röð.

Nú þegar hefur æfinga­ferð Vals­manna komist í fréttirnar en á dögunum var greint frá því að Gylfi Þór Sigurðs­son væri að æfa með liðinu í Mon­te­ca­still­o. Gylfi Þór er að jafna sig á meiðslum og hefur undan­farnar vikur æft á Spáni undir hand­leiðslu Frið­riks Ellerts Jóns­sonar, sem var lengi vel sjúkra­þjálfari ís­lenska lands­liðsins.

Mon­te­ca­still­o hefur í gegnum tíðina verið ansi vin­sæll á­fanga­staður hjá ís­lenskum fé­lags­liðum í knatt­spyrnu. Það eitt segir okkur að þar sé gott fyrir lið að dvelja í að­draganda keppnis­tímabils

KA - 7. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Hall­grímur Jónas­son.

Norðan­menn voru með fyrstu liðum í Bestu deildinni til þess að halda er­lendis þetta árið og hafa því nú þegar farið út og komið heim aftur þar sem að undir­búningurinn fyrir komandi tíma­bil heldur á­fram.

KA dvaldi yfir sjö daga tímabil á Meli­á Villaitana svæðinu á Benidorm. Svæðinu er lýst sem kjörnum vett­vangi til þess að gleyma öllu um­stangi sem fylgir hinu dag­lega lífi. Þar hafa KA-menn geta sinnt endur­hæfingu og slökun við frá­bærar að­stæður í heilsu­lind Melía Villaitana og gleymt sér á því frá­bæra golf­svæði sem það hefur upp á að bjóða. Sjón er sögu ríkari.

Meli­á Villaitana í nágrenni Benidorm lítur út fyrir að vera kjörinn staður til þess að undirbúa sig fyrir átök í Bestu deildinni

Breiða­blik - 4. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Hall­dór Árna­son

Um næstu helgi heldur lið Breiða­bliks út í sína æfinga­ferð. Blikar hófu undir­búninginn að­eins seinna heldur en hin lið deildarinnar þar sem að þeir úr græn­klædda hluta Kópa­vogs tóku þátt í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu, fyrst ís­lenskra karla­liða.

Þátt­taka liðsins í þeirri keppni lengi tíma­bilið tölu­vert. Síðasti leikur Blika í riðla­keppninni fór fram þann 14. desember síðast­liðinn.

Leikmenn Breiða­bliks mun verja rétt rúmri viku á La Fin­ca svæðinu sem er stað­sett mitt á milli Ali­cante og Murcia á austur­hluta Spánar, svæði sem margir Ís­lendingar tengja kannski betur við Tor­revi­eja.

Fimm stjörnu lúxusdvöl hjá Blikum þetta árið

Þar munu leik­menn og þjálfarar Breiða­bliks dvelja á La Fin­ca Resort. Fimm stjörnu hótel­svæði sem hefur upp á allt að bjóða, annars væri það lík­lega ekki fimm stjörnu svæði.

„Láttu stjana við þig eins og fræga fólkið lætur stjana við sig með heimsklassa þjónustu,“ segir í lýsingu á La Fin­ca Resort. Við segjum bara njótið dvalarinnar Blikar.

Ný­liðarnir fara sömu leið

Lið ÍA og Vestra eru ný­liðar Bestu deildar karla þetta tíma­bilið. Skaga­menn þekkja veruna í efstu deild vel, hafa þar unnið til margra titla, þó þeir hafi verið af skornum skammti undan­farin ár, en Vestri er með lið í efstu deild í fyrsta sinn.

Reynslu­boltar í efstu deild eða ekki. Ný­liðarnir hafa á­kveðið að vera sam­taka í vali sínu á æfinga­ferð fyrir komandi bar­áttu í Bestu deildinni.

Bæði lið halda til for­boðnu eyjarinnar suður í hafi, Tenerife, og mætti segja að þau gætu þar verið á heima­velli miðað við þann fjölda Ís­lendinga sem virðist þar staddur í viku hverri.

Nýliðar ÍA og Vestra fóru sömu leið þetta árið. Verður árangur liðanna í deildinni einnig svipaður?

Og ef það væri ekki nóg að liðin ætli bæði til Tene, þá get ég einnig tjáð ykkur það að þau munu dvelja á sama hóteli. Hovima Jardin Ca­leta er staðurinn. Parqu­e Santiago eitt, tvö, þrjú eða fjögur varð ekki fyrir valinu í þetta skipti.

Skaga­menn, þjálfaðir af Jóni Þór Hauks­syni, eru staddir á eyjunni fögru þessa dagana, nokkrum dögum á undan Vestra­mönnum sem eru þjálfaðir af Davíð Smára Lamu­de. Skaga­menn munu því án efa geta mælt með því góða sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Tja eða því slæma.

Fram - 10. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Rúnar Kristins­son

Í seinni hluta þessarar viku halda Framarar út í sína æfinga­ferð. Liðið heldur til Salou, í ná­grenni Barcelona, og dvelur þar rétt rúma viku.

Fram liðið er að feta nýja slóð undir stjórn reynslu­boltans Rúnars Kristins­sonar sem var ráðinn þjálfari liðsins eftir síðasta tíma­bil.

KR - 6.sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Gregg Ryder

Undir lok síðasta tíma­bils á­kváðu KR-ingar að semja ekki að nýju við þá­verandi þjálfara sinn Rúnar Kristins­son sem hvarf svo á braut. Inn var ráðinn Bretinn Gregg Ryder.

KR-ingar hafa staðið í stór­ræðum á leik­manna­markaðnum til þessa og spurning hvort koma nýrra leik­manna sé að fara langt með sjóði liðsins. Það er hið minnsta eina liðið í Bestu deildinni þetta árið sem heldur ekki er­lendis í æfinga­ferð.

Sagan segir að KR-ingar hafi haldið/muni halda til Akur­eyrar í æfinga­ferð. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Víkingur R. - 1. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Arnar Gunn­laugs­son

Ís­lands­meistarar Víkings Reykja­víkur þurfa að vera á tánum í titil­vörn sinni. Mál­tækið er víst þannig að erfiðara sé að verja titil en að vinna hann í fyrsta skipti.

Víkingar setja upp sól­gler­augun og ætla að skella sér til Kanarí­eyja í tíu daga hvorki meira né minna.

Íslandsmeistararnir munu geta spókað sig við sundlaugina

Þar mun liðið dvelja á Salobre hótelinu sem, líkt og önnur hótel í þessari um­fjöllun, hefur upp á allt það helsta að bjóða fyrir ljúfa dvöl.

FH - 5. sæti á síðasta tíma­bili - Þjálfari: Heimir Guð­jóns­son

Læri­sveinar Heimis Guð­jóns­sonar í FH eru þessa dagana úti í sinni æfinga­ferð. FH-ingar héldu til Anda­lúsíu á suður­hluta Spánar nú skömmu fyrir helgi. Þar dvelur liðið og æfir á Fairplay Golf & Resort svæðinu.

Stutt fyrir FH-inga á golfvöllinn. Munu án efa nýta sér það.

Fylkir - 8. sæti á síðasta tíma­bili - Rúnar Páll Sig­munds­son

Fylki­s­menn halda í strang­heiðar­lega dvöl rétt suður af Ali­cante í sinni æfinga­ferð. Liðið mun dvelja í tíu daga á Hotel Campoamor sem hefur verið vin­sæll á­fanga­staður ís­lenskra knatt­spyrnu­fé­laga í gegnum tíðina.

Ekki langt frá Alicante er Hotel Campoamor þar sem leikmenn og þjálfarar Fylkis munu undirbúa sig af krafti fyrir Bestu deildina.

HK - 9. sæti - Þjálfari: Ómar Ingi Guð­munds­son

Loka­hnykkurinn á æfinga­ferð HK, liðinu sem margir hafa á­hyggjur af fyrir komandi tíma­bil, stendur nú yfir. Liðið hefur undan­farna daga haldið til á Salou þar sem gist er á Cam­brils Park Resort. Framarar eru ein­mitt að fara að halda á sömu slóðir.

Það hefur vonandi farið vel um HK-inga á Cam­brils Park Resort svæðinu á Salou.

Stjarnan - 3.sæti - Þjálfari: Jökull I Elísa­betar­son

Læri­sveinar Jökuls I Elísa­betar­sonar hafa nú þegar farið í og lokið af sinni æfinga­ferð er­lendis þetta árið. Stjörnu­menn héldu til Al­bír í febrúar og spiluðu á Mediterranian Cup. Liðið dvaldi á Al­bír í tíu daga, nánar til­tekið á Al­bir Gard­ens Resort.

Það skal ekki sagt hvort leikmenn Stjörnunnar hafi farið í þennan morgunverð á Albir Gardens Resort í sinni æfingarferð



Um­fjöllun um æfinga­ferðir liða í Bestu deild kvenna fyrir komandi tíma­bil verður hægt að nálgast hér á Vísi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×