Körfubolti

„Það verður partý um allan bæ“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson (t.v.), bæjarstjóri Reykjanesbæjar, gat leyft sér að fagna eftir sigra Keflavíkur í VÍS-bikarnum í kvöld.
Kjartan Már Kjartansson (t.v.), bæjarstjóri Reykjanesbæjar, gat leyft sér að fagna eftir sigra Keflavíkur í VÍS-bikarnum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var eðlilega ánægður með sitt fólk eftir að Keflavík varð tvöfaldur bikarmeistari í körfubolta í kvöld. 

Karlalið Keflavíkur vann þrettán stiga sigur gegn Tindastóli í úrslitum VÍS-bikars karla í kvöld, 92-79, áður en kvennaliðið fylgdi því eftir með stórsigri gegn Þór Ak. í úrslitum VÍS-bikars kvenna, 89-67.

Kjartan hafði því góða ástæðu til að fagna með sínu fólki í stúkunni og niðri á velli í Laugardalshöllinni í kvöld og segist hann vera ótrúlega stoltur af liðunum.

„Já, mikil ósköp maður. Ekki bara af liðunum í dag, heldur líka okkar stuðningsfólki sem er búið að standa sig frábærlega í dag.“

Fyrri úrslitaleikur dagsins hófst klukkan 16:00 og þeim síðari lauk rétt fyrir klukkan 21:00 og stuðningsfólk Keflavíkur því búið að standa langa vakt. Kjartan segir það þó ekki hafa skipt neinu máli.

„Það er enginn að pæla í því. Þetta er bara vinna sem þarf að vinna og við gerðum það. Þetta var algjörlega frábært.“

Þá segir hann einnig að umrædd vinna muni nú halda áfram og að Keflvíkingar séu langt frá því að vera saddir eftir daginn í dag.

„Við erum bara á fullu núna og núna er bara úrslitakeppnin framundan. Við förum á fleygiferð í hana og vonandi berum við bara sigur úr býtum þar líka,“ bætti Kjartan við áður en hann fór lauslega yfir það sem væri framundan í Keflavík í kvöld.

„Það er bara partý og verður partý um allan bæ held ég,“ sagði Kjartan að lokum.


Tengdar fréttir

„Héldum bara áfram að berja á þeim“

Elisa Pinzan, leikmaður Keflavíkur, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í körfubolta með stórsigri gegn Þór Ak. í kvöld. Hún segir það þó ekki skipta máli hversu stór sigurinn er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×