Körfubolti

Hætti við að hætta og varð bikar­­meistari: „Súrealískt, líkt og í draumi“

Aron Guðmundsson skrifar
Danero Thomas hefur þurft að bíða lengi eftir sínum fyrsta titli í körfubolta á Íslandi. Hann varð bikarmeistari með Keflavík um nýliðna helgi
Danero Thomas hefur þurft að bíða lengi eftir sínum fyrsta titli í körfubolta á Íslandi. Hann varð bikarmeistari með Keflavík um nýliðna helgi Vísir/Sigurjón Ólason

Það er ó­hætt að segja að undan­farnir mánuðir hafi verið rússí­bana­reið fyrir Danero Thomas. Eftir að hafa lagt körfu­bolta­skóna á hilluna í desember hætti hann við að hætta, gekk til liðs við Kefla­vík og vann sinn fyrsta stóra titil á Ís­landi um ný­liðna helgi.

Kefla­vík varð tvö­faldur bikar­meistari um ný­liðna helgi. Kvenna­lið fé­lagsins lagði Þór frá Akur­eyri og karla megin batt karla­liðið enda á tólf ára bið sína eftir titli með sigri á Tinda­stól. Í liði Kefl­víkinga var að finna ís­lenska ríkis­borgarann Danero Thomas sem hefur leikið hér á landi síðan árið 2012. Þetta var hans fyrsti titill á Ís­landi.

„Súeralískt. Líkt og í draumi. Ég er enn að átta mig á þessu. Það fylgdi því frá­bær til­finning að verða bikar­meistari. Ég er búinn að vera brosandi síðan að við tryggðum okkur titilinn,“ segir Danero í sam­tali við Vísi.

Keflavík, bikarmeistari 2024Vísir/Hulda Margrét

Stökk á tækifærið: „Sjáðu hverju það skilaði mér“

Danero Thomas er fæddur árið 1986 í Banda­ríkjunum. Hann kom fyrst til Ís­lands árið 2012 og gekk til liðs við KR. Síðan þá hefur hann komið nokkuð víða við í ís­lenskum körfu­bolta en hann gekk til liðs við Hamar í þriðja sinn á ferlinum fyrir þetta tíma­bil.

Hann lék einnig fyrir Val, Fjölni, ÍR, Tinda­stól og síðast Breiða­blik. Árin 2015-2017 lék hann með Þór frá Akur­eyri og var einn af lykil­leik­mönnum liðsins þegar liðið vann sér sæti í úr­vals­deild 2016. Árið 2018 fékk Danero svo ís­lenskan ríkis­borgara­rétt og lék sinn fyrsta lands­leik gegn Noregi í septem­ber það ár.

Fyrir að­eins þremur mánuðum síðan hafði Danero, sem hóf yfir­standandi tíma­bil sem leik­maður ný­liða Hamars í Subway deildinni, á­kveðið að leggja skóna á hilluna. Kallið frá Kefl­víkingum kom hins vegar fljót­lega eftir þá á­kvörðun hans. Kall sem reyndist of hátt til þess að láta um eyru þjóta.

„Ég lék ein­hverja ellefu leiki með liði Hamars. Staðan þar, hvað liðið varðar, gekk bara ekki upp fyrir mig. Ég fékk stórt tæki­færi til þess að stökkva yfir í þjálfun frá Brynjari Karli, þjálfara Aþenu að hjálpa honum með liðið þar og svo með þann mögu­leika að þjálfa karla­lið í fram­haldinu.

Svo kemur til­boð frá Kefla­vík tveimur vikum síðar. Ég átti sam­tal með eigin­konu minni á þeim tíma­punkti og hún auð­veldaði mér þá á­kvörðun að snúa aftur inn á völlinn. Ég stökk á tæki­færið með Kefla­vík og sjáðu hverju það skilaði mér.“

Sigur tilfinningin gleymst seint

Á­kvörðun sem er lík­legast þess virði núna að hafa tekið?

„Já klár­lega þess virði. Ég er búinn að eltast lengi við þá til­finningu sem maður finnur fyrir þegar að maður vinnur titil. Á mínum tólf ára ferli hér á Ís­landi hafði mér aldrei tekist að vinna titil. Ég vann titla í há­skóla­boltanum í Banda­ríkjunum og þar fram eftir götunum og kannaðist því við til­finninguna sem því fylgir að vinna titil. Þetta hafa því verið tólf ár hjá mér að reyna upp­lifa þá til­finningu aftur. Ár sem eru klár­lega þess virði núna.

Maður gleymir því aldrei hvernig er að upp­lifa slíka til­finningu. Þess vegna hef ég verið að reyna allt sem í mínu valdi stendur til þess að upp­lifa þá til­finningu aftur. Vonandi getum við haldið á­fram að sækja fram og upp­lifað þessa til­finningu aftur saman.“

Nóg eftir á tankinum: Útilokar ekki að halda áfram

Verk­efni Kefla­víkur er ekki lokið á tíma­bilinu. Liðið er í góðri stöðu fyrir úr­slita­keppni Subway deildarinnar og stefnir að frekari sigrum. Og undan­farnar vikur virðast hafa kveikt nýjan neista hjá hinum 37 ára gamla Danero Thomas

„Þegar að ég mætti til fé­lagsins var orkan þar of­boðs­lega góð. Ég vissi frá byrjun að þarna væri eitt­hvað sér­stakt í gangi og að ég gæti komið með eitt­hvað auka­lega að borðinu. Alveg sama hvert mitt hlut­verk myndi verða hjá liðinu. Ég myndi alltaf gefa hundrað prósent í verk­efnið.“

Eftir að hafa hætt við að hætta segist Danero Thomas nú ekki viss hvort hann muni leggja skóna endan­lega á hilluna í lok yfir­standandi tíma­bils.

„Eins og mér líður núna þá myndi ég hik­laust segja já,“ segir Danero að­spurður hvort hann í­hugi að halda á­fram að spila körfu­bolta á næsta tíma­bili. „Ég veit ekki hver staðan verður hjá mér undir lok tíma­bils en við skulum sjá til. Ég ætla ekki að loka á neitt. Ég á klár­lega eitt­hvað eftir á tankinum. Ég mun í­huga þetta vand­lega næstu mánuðina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×