Um­fjöllun og við­töl: Valur - Breiða­blik 2-1 | Vals­konur Lengju­bikar­meistari 2024

Dagur Lárusson skrifar
Valur er Lengjubikarsmeistari kvenna 2024.
Valur er Lengjubikarsmeistari kvenna 2024. Vísir/Hulda Margrét

Valur lagði Breiðablik 2-1 í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í knattspyrnu. Um er að ræða topplið landsins undanfarin ár og leikurinn bar þess merki. 

Valur hafði betur getur Stjörnunni í undanúrslitunum þar sem lokatölur voru 4-0 á meðan Breiðablik sigraði Þór/KA í miklum markaleik en þar voru lokatölur 3-6.

Nik Chamberlain var ekki parsáttur með ákvörðun KSÍ að færa leikinn sem átti upphaflega að vera fyrr í vikunni og því var hann án margra leikmanna í leiknum og gat til að mynda aðeins verið með tvo leikmenn í bekknum.

Þrátt fyrir það var það Breiðablik sem náðu forystunni í leiknum strax á áttundu mínútu en þá fékk Hrafnhildur Ása boltann inni á vallarhelming Vals og bar hann upp að vítateignum þar sem hún reyndi að senda á Vigdísi en boltinn fór í varnarmann og þaðan til Vigdísar sem var ein gegn Fanney í markinu og skoraði framhjá henni. Staðan orðin 0-1.

Gestirnir voru sterkari aðilinn til að byrja með en þegar leið á fyrri hálfleikinn fóru Íslandsmeistararnir að sýna mátt sinn og megin. Á aðeins tveggja mínútna kafla var forystan komin til Vals. Fyrst var það Guðrún Elísabet sem skoraði af stuttu færi eftir að Katherine náði að vinna skallaeinvígi eftir að langar bolti barst inn á teig. Staðan orðin 1-1 á 24. mínútu. Á 26. mínútu náðu Valskonur síðan að vinna boltann hátt uppi á vellinum og fékk Amanda Andradóttir boltann og þrumaði honum upp í vinstra hornið. Algjörlega óverjandi og staðan orðin 2-1 og þannig var hún í hálfleik.

Það var lítið um færi í seinni hálfleiknum en það voru þreytumerki á báðum liðum en bestu færin komu þó hjá Breiðablik. Vigdís Lilja var öflug í fremstu línu liðsins og á 73. mínútu var hún mjög nálægt því að jafna leikinn eftir að hafa leikið á Lillý Rut í vörn Vals en boltinn fór rétt framhjá.

Gestirnir reyndu allt hvað þeir gátu að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og lokatölur því 2-1 fyrir Val sem er því Lengjubikarmeistari 2024.

Af hverju vann Valur?

Þegar á heildina er litið er hægt að færa rök fyrir því að Breiðablik hafi verið betra liðið í leiknum en Valskonur eru það öflugar fram á við að þær þurftu ekki mikið af færum og þær afgreiddu leikinn á aðeins tveimur mínútum. 

Hverjar stóðu upp úr?

Þær Amanda og Guðrún voru öflugar frammi hjá Val en að mínu mati var það Vigdís Lilja sem stóð sig best í leiknum í dag. Hún skoraði marki Blika og hætti ekki að hlaupa allan leikinn og var sífellt að ógna með hraða sínum og tilþrifum.

Hvað fór illa?

Bæði lið virkuðu þreytt og var útskýring á því. Valskonur spiluðu síðast fyrir aðeins þremur dögum og Breiðablik var með mjög þunnan leikmannahóp.

Nik Chamberlain: Ósáttur með það að KSÍ geti ekki planað fram í tímann

Nik Chamberlain á hliðarlínunni með Þrótti síðasta sumar en hann var sjö ár hjá Þrótti áður en hann söðlaði um síðasta haust og tók við BlikumVísir/Diego

„Við vorum með leikplan og við héldum okkur við það og ég er virkilega ánægður með það,“ byrjaði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, að segja eftir leik.

„Ég var svolítið ósáttur með seinna markið þeirra. Þá vorum við með boltann en þurftum einfaldlega bara að spila hraðar en fyrir utan það þá vorum við með plan og við náðum að halda okkur við það.“

„Ég sagði það við þær eftir leik að ég væri virkilega ánægður með þær. Við sköpuðum færi og á öðrum degi hefðum við náð að jafna leikinn. Þannig ég lít á frammistöðuna með jákvæðum augum,“ hélt Nik áfram að segja.

Nik talaði síðan aðeins um breytinguna á leiktímanum sem hafði mikil áhrif á hans leikmannahóp.

„Svona þar sem við hefðum átt að spila á miðvikudaginn en ekki í dag, en það gerðist vegna þess að KSÍ var ekki fært um að plana vel fram í tímann. Það hefði verið betra fyrir bæði lið að spila þennan leik á miðvikudaginn þar sem bæði lið hefðu hafi fleiri leikmenn í sínum leikmannahópi.“

„Ég er bara virkilega svekktur að KSÍ geti ekki planað fram í tímann. Það var mjög skýrt að í byrjun þá stóð alltaf að úrslitaleikurinn myndi vera spilaður þann 27. mars en svo var ekki,“ endaði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks að segja eftir leik.

Adda Baldursdóttir: Vonandi skellir hann sér á ABBA

„Þetta var svona heldur þunglamalegt en við náðum að skora tvö flott mörk ég er ánægð með það,“ sagði Adda Baldursdóttir sem stýrði Valsliðinu í fjarveru Péturs Péturssonar.

„Við auðvitað spiluðum síðast fyrir þremur dögum og við náðum ekkert að æfa fyrir þennan leik og þess vegna var við því að búast að það yrði ákveðin þreytumerki á liðinu. En síðan vorum við líka að spila gegn þrusu góðu Blika liði. Þær voru að spila öðruvísi en við áttum von á, öðruvísi leikkerfi sem kom okkur í opna skjöldu og við þurfum að laga okkur að því sem og við gerðum.“

Adda var síðan spurð út í fjarveru Péturs og hvort að hún tengdist breytingunni á leiktímanum.

„Nei þetta var nú löngu ákveðið. Kallinn var eitthvað þreyttur eftir æfingaferðina þannig við vildum bara gefa honum smá frí úti í London og vonandi skellir hann sér á ABBA sýningua,“ sagði Adda Baldursdóttir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira