Íslenski boltinn

Besta-spáin 2024: Brakar í heila prófessorsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Síðustu ár hafa verið afar góð í Laugardalnum.
Síðustu ár hafa verið afar góð í Laugardalnum. vísir/vilhelm

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Þrótti 5. sæti Bestu deildar kvenna í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með tveimur leikjum sunnudaginn 21. apríl.

Íþróttadeild spáir Þrótti 5. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið fari niður um tvö sæti frá síðasta tímabili.

Stuðningsmenn Þróttar eru orðnir góðu vanir eftir stöðugar framfarir kvennaliðs félagsins undir stjórn Niks Chamberlain á undanförnum árum. Þróttarar unnu næstefstu deild 2019, enduðu í 6. sæti efstu deildar 2020, 3. sæti 2021 og komust í bikarúrslit, 4. sæti 2022 og aftur 3. sæti í fyrra.

grafík/bjarki

Eftir tímabilið hætti Nik hins vegar þjálfun Þróttar og sterkir leikmenn hurfu á braut. Ólöf Sigríður Kristinsdóttur fylgdi Nik til Breiðabliks, Katla Tryggvadóttir fór til Kristianstad í Svíþjóð, Tanya Boychuk til Vittsjö í sömu deild og Katie Cousins og Íris Dögg Gunnarsdóttir í Val. Þetta er engin smá missir.

Það er því ekki auðvelt verkefnið sem bíður Ólafs Kristjánssonar, nýs þjálfara Þróttar. Það var metnaðarfull ráðning og kannski sú stærsta í sögu efstu deildar kvenna. Ólafur gerði karlalið Breiðabliks að bæði Íslands- og bikarmeisturum og þjálfaði þrjú lið í dönsku úrvalsdeildinni. Afar spennandi verður að sjá hvernig Ólafi gengur í frumraun sinni í kvennaboltanum.

grafík/bjarki

Síðustu ár hefur Þróttur nær alltaf fengið fimm rétta í útlendingalottóinu og það þarf líka að vera þannig í sumar. Þróttarar fengu markvörðinn Mollie Swift, bakvörðinn Caroline Murray (sem lék með FH 2017) og framherjann Leah Pais sem varð bandarískur háskólameistari með Florida State í fyrra. Þá fékk Þróttur Sigríði Theodóru Guðmundsdóttur frá Val og Kristrúnu Rut Antonsdóttur frá Selfossi. 

Sigríður og Kristrún bætast í sterkan íslenskan kjarna í leikmannahópi Þróttar. Líkt og síðustu ár verða fyrirliðinn Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, Sóley María Steinarsdóttur, Jelena Tinna Kujundzic, Ísabella Anna Húbertsdóttir, María Eva Eyjólfsdóttir og Sæunn Björnsdóttir í stórum hlutverkum hjá rauðhvíta liðinu. Þá ætti Norðfirðingurinn Freyja Karín Þorvarðardóttir að geta tekið skref fram á við frá síðasta tímabili. 

Lykilmenn

  • Sóley María Steinarsdóttir, 23 ára varnarmaður
  • Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, 23 ára miðjumaður
  • Leah Pais, 23 ára sóknarmaður

Fylgist með

Brynja Rán Knudsen spilaði sína fyrstu leiki með Þrótti sumarið 2022, þá aðeins fimmtán ára, og skoraði eitt mark í Bestu deildinni. Leikirnir voru átta í fyrra og mun fjölga mikið í sumar enda verður Brynja að öllum líkindum í stóru hlutverki í liði Þróttar. Þessi feykilega efnilegi leikmaður hefur leikið fjórtán leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Í besta/versta falli

Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku eru alveg forsendur fyrir enn einu skemmtilegu sumri í Laugardalnum. Þróttur er þéttan kjarna og ef nýju leikmennirnir reynast vel gæti Þróttur lent í 3. sæti og þar með jafnað besta árangur liðsins í efstu deild. Ef allt gengur á afturfótunum rekur liðið lestina í úrslitakeppni efri hlutans. Það kemst þó líklega alltaf þangað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×