Enski boltinn

Totten­ham og Man United mætast í bikar­úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Man United fagna.
Leikmenn Man United fagna. Nathan Stirk/Getty Images

Tottenham Hotspur og Manchester United mætast í úrslitum ensku bikarkeppni kvenna í knattspyrnu. Tottenham lagði Leicester City í undanúrslitum á meðan Man United lagði Englandsmeistara Chelsea.

Rauðu djöflarnir byrjuðu leik dagsins af gríðarlegum kraft og kom Luis Garcia þeim yfir strax á fyrstu mínútu eftir undirbúning Leah Galton. Rachel Williams tvöfaldaði svo forystuna á 23. mínútu eftir sendingu Ellu Toone.

Það stefndi í að Man United yrði 2-0 yfir í hálfleik en þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik minnkaði Lauren James, fyrrum leikmaður Man Utd, metin. Þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik reyndust lokatölur leiksins 2-1 og er Man United komið í bikarúrslit.

Í úrslitum mætast Man United og Tottenham en síðarnefnda liðið þurfti framlengingu til að vinna Leicester með sama mun, lokatölur 2-1.

Jutta Rantala kom Leicester yfir á 12. mínútu og þurfti Tottenham að bíða þangað til á 83. mínútu en þá jafnaði Jessica Naz metin. Staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og á 118. mínútu kom markið sem skaut Tottenham í úrslit. Martha Thomas með markið og lokatölur 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×