Íslenski boltinn

„Við þurfum að þekkja okkar vitjunar­tíma og taka færin“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var nokkuð brattur eftir leik þrátt fyrir tap.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var nokkuð brattur eftir leik þrátt fyrir tap. vísir / anton brink

Þróttur tapaði 1-2 gegn Íslandsmeisturum Vals í 2. umferð Bestu deildar kvenna í dag. Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var nokkuð brattur eftir leik.

„Á síðasta þriðjungi hefði ég viljað sjá betri ákvarðanatökur og í fyrri hálfleik vorum við svolítið hræddar við að spila boltanum fram en ég á eftir að sjá leikinn aftur til þess að meta hvort að svekkelsið sé mikið eða lítið.“ sagði Ólafur í viðtali eftir leik og bætti við að hann sé aldrei sáttur við að tapa.

Bæði mörk Vals komu í fyrri hálfleik og að mati Ólafs opnaðist vörn Þróttar aðeins of mikið.

„Þær fóru aðeins í gegnum okkur. Við vissum að það væri áhætta að spila eins og við gerum en við njótum einnig góðs af því. Valur er með góða leikmenn sem klára færin sín og við ætluðum að lifa með því en kannski var það áhætta en það þarf stundum að gera það.“

Ólafur tók undir með blaðamanni aðspurður hvers vegna dómari leiksins refsaði ekki leikmönnum fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að búið væri að flauta rangstöðu.

„Ég er alveg sammála þér. Ég er ekki refsiglaður en það þýðir ekkert að sleppa þessu þar sem þetta eru bara reglur og ef þú tekur hart á þessu á einum stað þá verður þú að taka hart á þessu á öðrum stað þar sem þetta er sama íþróttin.“

Þróttur fékk dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks til þess að jafna leikinn og Ólafur hefði viljað sjá boltann í markinu.

„Það var vissulega snemma í síðari hálfleik. Þetta var gott færi og vel spilað en boltinn fór í hliðarnetið. Það hefði breytt einhverju þar sem staðan hefði verið jöfn en það var mikið eftir.

„Við þurfum að þekkja okkar vitjunartíma og taka færin sem við gerðum ekki alveg,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×