Erlent

Faðir Johnson ver umdeilda Grikklandsför sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðalag Stanleys Johnson, föður Boris forsætisráðherra, hófst þegar bresk stjórnvöld beindu því til Breta að þeir forðuðust óþarfa ferðalög.
Ferðalag Stanleys Johnson, föður Boris forsætisráðherra, hófst þegar bresk stjórnvöld beindu því til Breta að þeir forðuðust óþarfa ferðalög. Vísir/EPA

Stanley Johnson, faðir forsætisráðherra Bretlands, segist vera í viðskiptaferð í Grikklandi og að myndum sem hann birti af ferðalaginu hafi ekki verið ætlað að gera lítið úr tilmælum breskra stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Johnson lagði upp í ferðalagið þrátt fyrir að stjórnvöld bæðu Breta um að forðast óþarfa ferðalög út fyrir landsteinana.

Ferðalagið hefur vakið umræður á Bretlandi. Grísk yfirvöld staðfestu að Johnson hefði komið þangað, líklega frá Búlgaríu, á fimmtudag. Johnson á sumarhús í Pelion-héraði í Norður-Grikklandi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Boris Johnson, forsætisráðherra, vildi ekki tjá sig um ákvörðun föður síns og sagði fréttamönnum að þeir yrðu að spyrja hann út í það í gær.

„Ég veit ekki um viðbrögð bresks almennings. Ég kom hingað til að hafa næði til að skipuleggja húsið,“ sagði Johnson við gríska fréttamenn. Hann ætlaði að útbúa húsið þannig að öruggt væri að leigja það út í faraldrinum.

„Ég hef bara eina viku til að skipuleggja allt. Ég er með fullt af leiðbeiningum um hvernig á að gera staðinn Covid-heldan,“ sagði Johnson sem ætlar að snúa aftur til Bretlands á föstudag.

Instagram-myndum sem hann birti á leið sinni til Grikklands hafi ekki verið ætlað að vera ögrun við tilmæli breskra stjórnvalda.

Eftir að Johnson hélt til Grikklands gáfu bresk stjórnvöld út undanþágur frá tilmælum um að fólk forðaðist óþarfa ferðalög sem tóku gildi í dag. Grikkland er á meðal þeirra landa sem eru nú undanþegin tilmælunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×