Skoðun

Lýgin innra með mér

Gunnar Dan Wiium skrifar

Get ég fylgst með heiminum innanfrá? 

Ég fer í gegnum lífið lesandi fréttir. Heyri af atburðum og set mig inn í nýjasta slúðrið. Ég hlusta á þríeykið finna upp hjólið á hverjum degi. Stundum er það þríhyrnt, stundum sexhyrnt og stundum trapisa.

Ég tek til og reiti arfa í garðinum. Fylgist grant með hvort hundaeigendurnir poki ekki kúkinn af grasinu því ég trúi ekki á girðingar þó mér sé ílla við saur milli tánna. 

Ég sé flísina í öðrum og bendi óspart. Ég leita í örvæntingu að sannleika utan við mig en finn aldrei neitt nema lýgi.

Minnir mig á söguna af betlaranum sem eyddi ævinni sitjandi á hálf ónýtri kistu betlandi aura. Eftir að hann dó kom það í ljós að kistan sem hann sat á var fjarsjóðskista full af gulli og demöntum betlaranum óafvitandi. 

Svo því spyr ég mig hvort heiminn sé að finna innra með mér? Get ég byrjað þar? Öll viljum við finna sannleikan og tilgang. Allar vörur eru seldar okkur sem sannleikur og tilgangur. Við erum nánast tilbúin að gera hvað sem er fyrir sannleika, eitthvað hreint og áreynslulaust. Raunverulega gleði og kærleik, sjálfs kærleik.

En ég segi nánast, við erum kannski ekki tilbúin að gera allt, bara nánast allt. Kannski viljum við það alveg en erum ekki tilbúin að sjá að ytra er einungis spegilmynd þess innra. Innra er miklihvellurinn sem framkallar þennslu þess raunveruleika sem svo er skynjaður af hverjum og einum. 

Þess vegna í stað þess eins og fiskur í leit af vatni staldra ég við og rýni inn í myrkrið með athygli á það eina sem er, andardráttur.

Ég leita án þess að leita. Eindirnar byrja að hrannast upp hver af annari í örvæntingu og lífsþorsta. Þær sækjast í athygli, samsömum með sjálfi sem ég veiti þeim ekki því athyglin er andardráttur.

Það þarf ekkert mikið til að þær missa mátt sinn og sökkva til botns í þykkt leðjulag. Eins og molta sem svo með tímanum við réttar aðstæður kristallast yfir í fjársjóð.

Eftir situr sannleikurinn. Rýmið sem þarf til speglunar sjálfs í tærri tjörn vitundar. 

Svo bræður og systur, ef þið hafið komist í gegnum þessa langloku, og trúið mér, alls ekki sjálfgefið. Þá leitið inná við að lýginni einungis í þeim tilgangi að upplifa sannleikan sem við í raun og veru erum. Við erum sannleikurinn sem leitar sjálfs síns.

Höfundur er smíðakennari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×