Viðskipti innlent

Stjórn Icelandair hafnaði sjö milljarða króna tilboði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fullyrt er í frétt Fréttablaðsins í morgun að stjórn Icelandair hafi hafnað tilboði Michelle Ballarin í hlutafjárútboði félagsins sem lauk í gær.
Fullyrt er í frétt Fréttablaðsins í morgun að stjórn Icelandair hafi hafnað tilboði Michelle Ballarin í hlutafjárútboði félagsins sem lauk í gær. Vísir/Baldur

Stjórn Icelandair hafnaði tilboði sem nam sjö milljörðum króna í hlutafjárútboði félagsins sem kláraðist í gær.

Upphæðin samsvarar þeirri fjárhæð sem bandaríski fjárfestirinn Michelle Ballarin gerði í útboðinu og hefur fréttastofa heimildir fyrir því að það hafi einmitt verið tilboð Ballarin sem stjórn félagsins hafnaði. Fyrst var greint frá málinu á vef Fréttablaðsins í morgun.

Hvorki Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill, sem hefur aðstoðað Ballarin hér á landi né Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður Ballarin, höfðu heyrt af því að Icelandair hefði hafnað tilboði fjárfestisins þegar Vísir náði tali af þeim í morgun.

Í tilkynningu Icelandair í gær kom fram að alls hefðu borist yfir 9 þúsund áskriftir samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna.

Stjórn hefði samþykkt áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarða og þannig ákveðið að nýta heimild til stækkunar útboðsins þannig að fjöldi seldra hluta verður 23 milljarðar.

Fréttastofa greindi frá því síðdegis í gær að Ballarin hefði skráð sig fyrir stórum hlut í Icelandair. Ballarin er ekki ókunn íslenskum flugheimi en hún stefndi að því að stofna flugfélag á Íslandi og keypti að lokum WOW air af þrotabúi félagsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gerði Ballarin tilboð í gær upp á um sjö milljarða íslenskra króna. Var þetta um helmingur þeirrar upphæðar sem reynt var að afla með hlutafjárútboðinu til viðbótar við loforðin frá bönkunum.

Ballarin hefði þá orðið stærsti einstaki hluthafinn í félaginu en hún vonaðist til að halda á 25% hlut í Icelandair eftir kaupin.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×