Fótbolti

Ólafur um sam­band sitt við Al­freð: „Baunaði á hann í fjöl­miðlum ef þess þurfti og hann tók því“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur í þættinum á fimmtudagskvöldið.
Ólafur í þættinum á fimmtudagskvöldið. vísir/s2s

Ólafur Kristjánsson segir að samband hans og Alfreðs Finnbogasonar hafi verið gott tímabilið 2010 er Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn í karlaflokki. Ólafur hafi gert miklar kröfur á Alfreð.

Ólafur var gestur Gumma Ben á Sportinu í kvöld þar sem hann gerði upp tímabilið en Ólafur var óhræddur við að gagnrýna Alfreð meðal annars í fjölmiðlum. Hann var spurður út í samband sitt við Alfreð þetta tímabil.

„Ég held að ég hafi alltaf verið þannig að þeim sem ég hef mikla trú á og finnst hafa mikla hæfileika, þá geri ég kröfur og ég er smámunasamur,“ sagði Ólafur.

„Ég ýti á menn og gerði það við Alfreð. Hann tók því mjög vel. Árið 2008 var hann fúll að vera ekki í byrjunarliðinu á móti Keflavík og var settur á bekkinn og skoraði. Þá fagnaði hann með því að setjast niður eins og hann væri á bekknum. Við vorum fram og til baka. Ég held að hann hafi gott af því.“

Ólafur segir að þetta hafi ekki háð þeim í seinni tíma en Alfreð spilar eins og kunnugt er í dag með Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni.

„Í okkar samskiptum seinna hef ég ekki fundið fyrir því að það voru gerðar til hans kröfur. Hann gat alveg tekið því. Hann var með bilaðan metnað og svakalega hæfileika. Þá finnst mér það skylda míns sem þjálfara að gera kröfur.“

„Í alvöru elítu umhverfi þar sem þú býrð til sigurvegara þá gera menn kröfur. Það að gera ekki kröfur þá ertu að svíkjast undan sem þjálfari. Ég baunaði á hann og stundum í fjölmiðlum ef það þurfti. Hann tók því eins og karlmaður og hefur vonandi þroskast við það.“

Innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í kvöld - Óli Kristjáns um Alfreð árið 2010

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×