Fótbolti

Evrópu­meistarar Barcelona sneru dæminu við og eru komnar í úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barcelona er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Barcelona er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu. EPA-EFE/ISABEL INFANTES

Barcelona er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu kvenna eftir 2-0 sigur á Chelsea í Lundúnum í dag, laugardag. Sneru Börsungar dæminu við eftir að tapa óvænt á heimavelli.

Barcelona er ríkjandi Evrópumeistari eftir sigur á Wolfsburg í úrslitaleik síðasta tímabils. Liðið tapaði gríðarlega óvænt 1-0 gegn Chelsea í Katalóníu og virtist sem Emma Hayes væri á leið í úrslit á sínu síðasta tímabili sem þjálfari Chelsea. Annað átti þó eftir að koma á daginn.

Aitana Bonmatí, besta knattspyrnukona í heimi, kom Barcelona yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Hún fékk boltann frá Patriciu Guijarro og átti skot sem fór af varnarmanni og í netið. Staðan orðin 0-1 í leik dagsins og 1-1 í einvíginu.

Reyndist þetta eina mark fyrri hálfleik og leikurinn í járnum þegar liðin gengu til búningsherbergja. sjoeke Nüsken var nálægt því að jafna metin fyrir Chelsea en skot hennar fór í stöngina. 

Það var svo á fimm mínútna kafla í síðari hálfleik sem einvígið snerist Barcelona í hag. Hin kanadíska Kadeisha Buchanan fékk þá tvö gul spjöld og þar með rautt í liði Chelsea. Heimakonur því manni færri það sem eftir lifði leiks og það nýttu gestirnir sér.

Þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks fengu gestirnir vítaspyrnu þegar Bonmatí féll innan vítateigs eftir að Jessica Carter og Ashley Lawrence virtust keyra í bakið á henni.

Hin sænska Fridolina Rolfö fór á punktinn og skaut Barcelona alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu. 

Lokatölur á uppseldri Brúnni í Lundúnum 0-2 og Barcelona mætir annað hvort Lyon eða París Saint-Germain í úrslitum. Frönsku liðin mætast klukkan 14.00 á morgun en Lyon leiðir 3-2 eftir fyrri leik liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×